Foreldrar á Reyðarfirði styðja leikskólakennara
Foreldrafélag leikskólans Lyngholts á Reyðarfirði, styður að fullu kröfur leikskólakennara í baráttu þeirra um bætt kjör. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem foreldrafélagið sendi frá sér í gær.
Þar segir: „Leikskólakennarar eru fagstétt og ein af máttarstólpum þjóðfélagsins. Við felum þeim daglega fjársjóð framtíðarinnar og um leið ábyrgðarfullt og vandasamt verkefni.
Við hvetjum viðsemjendur leikskólakennara að koma að samningaborðinu, sýna virðingu í verki og leiðrétta kjör leikskólakennara. Með því væntum við þess að faglegt og hæft starfsfólk leiði starfsemi fyrsta skólastigsins, þar sem grunnurinn er lagður að þroska og menntun barna okkar.“