Forgangsmál að ná til þeirra sem ekki eru bólusettir og hafa umgengist sýkta einstaklinga

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) leggja allt kapp á að ná til þeirra sem ekki eru með varnir gegn mislingum og kunna að hafa komist í tæri við einstaklinga með smit. Gripið hefur verið til sérstakra aðgerða á leikskólanum á Reyðarfirði. Einstaklingar með fulla bólusetningu eiga ekkert að þurfa að óttast.

Um miðjan febrúar var staðfest að einstaklingur sem kom til Íslands frá Filippseyjum hefði borðið með sér smitandi mislinga. Viðkomandi kom til landsins með vél Icelandair frá Lundúnum 14. febrúar og kom austur til Egilsstaða daginn eftir með innanlandsflugi. Öðrum farþegum og áhafnarmeðlimum vélanna var gert aðvart um mögulegt smit um leið og það hafði verið staðfest.

Í gærkvöldi var síðan staðfest að þrír einstaklingar hefðu smitast til viðbótar, tvö börn og einn fullorðinn. Einn þessara einstaklinga er á Austurlandi sem stendur.

„Það hefur verið reynt að kortleggja hugsanlega dreifingu þess aðila, eins mikið og það er hægt. Í kjölfarið höfum við reynt að upplýsa þá einstaklinga sem hugsanlega geta hafa orðið fyrir smiti og eru óbólusettir og bjóða þeim bólusetningu,“ segir Pétur Heimsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA).

Ekki hætta á faraldri

Öll börn á Íslandi eiga að vera bólusett gegn mislingum við 18 mánaða aldur en hægt er að byrja bólusetningu allt frá sex mánaða aldri. Þeir sem smitast hafa af mislingum áður fyrr eru einnig með mótstöðu fyrir smiti.

„Vinna okkar miðar að því að ná til fólks sem er útsett fyrir smiti og óbólusett til að gefa því ráð sem snýr annars vegar að bólusetningu, hins vegar ráðleggja einangrun til að forðast frekari áhættu,“ segir Pétur.

Pétur segir að um 95% þjóðarinnar eigi að vera ónæm gagnvart mislingum. Þess vegna sé ekki óttast að faraldur kunni að koma upp en ekki sé loku fyrir það skotið að fleiri stök tilfelli komi upp.

Fólk sýnir skilning

Bólusetningu gegn mislingum á að endurtaka við 12 ára aldur og veitir hún þá ævilanga vörn. Frá árinu 2002 hefur bólusetning verið skráð í miðlægan gagnagrunn og geta einstaklingar flett upp bólusetningum sínum í gegnum Ísland.is. Fyrir þann tíma fengu einstaklingarnir bólusetningarkort. Einhverjir kunna að hafa sleppt 12 ára sprautunni og geta þeir haft samband við heilsugæslustöðvar og fengið úthlutað tíma, en þeir teljast ekki í forgangshópi hafi þeir ekki verið í beinni snertingu við smitbera.

HSA sendi í gær frá sér tilkynningu um að þeir sem væru óbólusettir eða kenndu einkenna gætu hringt í síma 470-3081 en skyldu ekki koma beint á heilsugæslustöðvar. Pétur segir að talsvert álag hafi verið á símanum í dag en allt gengið þokkalega. „Fólk sýnir því almennt skilning að það sé álag og að sumir þurfi að vera í meiri forgangi en aðrir. Við höfum líka bakland í traustri leiðsögn sóttvarnalæknis.“

Óbólusett börn og starfsfólk heima til 22. mars

Austurfrétt hefur í dag rætt við forelda og íbúa um ástandið. Almennt gengur lífið sinn vanagang en foreldrar barna 18 mánaða og yngri hafa nokkrar áhyggjur og forðast að fara með þau á fjölfarna staði. Austurfrétt er kunnugt um að samkomum fyrir svo ung börn hafi verið aflýst.

Foreldrar leikskólabarna á Reyðarfirði fengu í dag bréf um að öll börn og starfsmenn sem voru í skólanum fimmtudaginn 28. Febrúar og annað hvort hafa ekki verið bólusett eða fengið mislinga verði heima hjá sér til 22. mars, með sem minnstu samneyti við almenning og óbólusetta einstaklinga. Þetta er gert til að koma í veg fyrir frekara smit í samfélaginu. Bólusett börn og starfsmenn geta haldið áfram að vera í leikskólanum en foreldrar og starfsmenn sem ekki hafa sögu um bólusetningu eru hvattir til að snúa sér til heilsugæslu.

Bréfið sem sent var út á Reyðarfirði er í svipuðum tón og sent hefur verið út í skólum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið gripið til sambærilegra ráðstafana í öðrum skóum eða stofnunum á Austurlandi.

„Eðlilega er fólk áhyggjufullt, einkum foreldrar ungra barna, en almennt tekur fólk þessu af stillingu og skynsemi,“ segir Pétur.

Nægt bóluefni til fyrir forgangshóp

Í fréttum í dag hefur verið greint frá því að hratt gengi á bóluefni gegn mislingum og meira hafi verið pantað. „Við höfum enn engar áhyggjur að við getum ekki bólusett þá sem við setjum í forgang,“ svarar Pétur aðspurður um stöðuna á Austurlandi.

Einstaklingar byrja að smita um sólarhring áður en þeir veikjast og eru smitandi í um tíu daga, veikindi geta komið fram á degi 6-21 eftir smit. Mislingar smitast með úða, svo sem hósta, hnerra eða slefi milli fólks. Það eitt og sér að vera í nálægð við smitaðan einstakling á ekki að gera varðan einstakling að smitbera. „Við göngum út frá því að sá sem er bólusettur eða hefur fengið mislinga hvorki smitast né smitar,“ segir Pétur.

Verkefni samfélagsins að hindra frekara smit

Pétur segir að samfélagið allt standi saman í að hindra útbreiðslu smits. Að því komi ekki bara fagfólk HSA, sem sé undir talsverðu álagi. Þeim tilmælum hefur því verið beint til atvinnurekanda að fara ekki fram á vottorð fyrir fjarvistum, til dæmis þurfi foreldrar að vera heima hjá veikum börnum, til að auka ekki enn frekar álag á heilbrigðisstarfsfólk.

Hægt er að hafa samband við heilsugæslustöðvar á Austurlandi í síma 470-3081 frá 9-12 og 13-15 virka daga. Utan þess tíma er hægt að hafa samband í síma 1700 sem er sólarhringsvakt á landsvísu sem leiðbeinir fólki frekar um allt sem viðkemur mislingum og hvert fólk á að leita ef það telur að það eða börn hafi smitast eða veikst af mislingum.

Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið gegn mislingum? - Efni frá embætti landlæknis
Um mislinga á Heilsuvera.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.