Forsetaframbjóðandi kynnist kjósendum með að ferðast um á puttanum

Elísabet Jökulsdóttir er á lokametrunum að safna tilskildum fjölda undirskrifta á Austurlandi til að geta boðið sig fram til forseta Íslands. Hún segist vilja vera forseti fyrir fólkið og húkkaði sér far milli landshluta.


„Ég hefði vel getað beðið eftir rútunni en hafði ekki eirð í mér til þess. Ég hitti ungan flugmann, sjómann og Pólverja á leiðinni. Það var vel þess virði,“ segir Elísabet.

Hún kom austur í Egilsstaði í gærkvöldi eftir að hafa verið á Akureyri. Frambjóðandinn þarf 63 undirskriftir í Austfirðingafjórðungi og var langt kominn með að ná þeim fyrir hádegið.

„Viðtökurnar hafa verið góðar. Ég finn að það elska mig allir á Austfjörðum og vilja helst að ég verði forseti Austfirðinga,“ segir hún og kímir.

„Það verður að vera grín með í þessu. Það má ekki vera alvarlegt að kjósa forseta. Það er virðing við lífið að gera grín.“

Elísabet segir undirskriftasöfnunina hafa gengið ágætlega þótt það taki ögn á taugarnar að hlaupa á milli.

„Það skrifuðu þrír naktir menn í karlaklefanum í sundlauginni undir í gærkvöldi, svo stoppaði ég tvær konur með jeppa fullan af börnum og þær skrifuðu undir. Ég hitti líka á 20 karla í kaffitímanum og þeir urðu kátir þegar ég sagði að eitt af stefnumálum mínum væri að lengja kaffitímann.

Maður verður svolítið stressaður og þá verður maður tilætlunarsamur og gráðugur. Ég er þakklát fyrir að hafa komið hingað og hitt fólkið.“

Elísabet hélt heldur óvenjulegan framboðsfund í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í gærkvöldi þar sem hún talaði um áföllin í lífi sínu.

„Hinu eru meira í málefnunum, náttúrunni og menningunni, sem er góðra gjalda vert en mín áhersla er að verða forseti fyrir fólkið. Fyrir börn og gamalmenni sem eru viðkvæm hvor á sínum pólnum.

Það eru börn í þessu landi sem fremja sjálfsmorð. Það er hægt að koma í veg fyrir það. Þetta er ekki lögmál og ég þekki þetta úr minni fjölskyldu.

Eins og Vigfús Bjarni, sem ég sé eftir úr baráttunni, talaði um að þá er hver Íslendingur dýrmætur fyrir annan Íslending. Mig langar líka að halda fyrirlestur um það sem við eigum saman.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.