Forsetahjónin í opinberri heimsókn
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid halda í opinbera heimsókn til Borgarfjarðar eystri, Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps á morgun og lýkur henni á fimmtudag.
Í ferðinni munu þau heimsækja skóla, stofnanir og fyrirtæki í þessum sveitarfélögum og hitta fjölmarga íbúa þeirra að máli. Þá verður boðið til fjölskylduhátíðar í Valaskjálf á Egilsstöðum á miðvikudaginn klukkan 20:00.
Forsetahjónin hefja ferð sína á þriðjudag með því að snæða kvöldverð með íbúum á Borgarfirði eystra í Félagsheimilinu þar og fara morguninn eftir í skoðunarferð um kauptúnið og nágrenni þess. Þá verður haldið upp á Fljótsdalshérað og byrjað með hádegisfundi með íbúum Úthéraðs í Hjaltalundi klukkan hálf tólf. Að honum loknum liggur leiðin að Urriðavatni þar sem forsvarsmenn hitaveitunnar kynna starfsemi hennar og sagt verður frá áformum fyrirtækisins Vakar um ylströnd. Því næst verður haldið að Valgerðarstöðum og skoðuð ræktun á wasabi plöntunni sem fyrirtækið Jurt stendur að. Þá taka við heimsókn í leikskólann Tjarnarskóg á Egilsstöðum og í Egilsstaðabúið þar sem Gunnar Jónsson og Vigdís Sveinbjarnardóttir taka á móti forsetahjónum.
Klukkan 20:00 hefst svo fjölskylduhátíð í Valaskjálf sem opin er öllum íbúum héraðsins og verður þar boðið upp á tónlist og fleiri skemmtiatriði; þar mun forseti einnig flytja ávarp og forsetahjón blanda geði við heimamenn.
Á fimmtudaginn hefst dagskrá forsetahjóna með heimsókn í Menntaskólann á Egilsstöðum en svo skoða þau Brúnás innréttingar og halda að því loknu í hjúkrunarheimilið Dyngju. Í hádeginu munu þau snæða hádegisverð með nemendum og kennurum í Egilsstaðaskóla. Því næst kynna hjónin sér menningarstarfsemi sem fram fer í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, aka svo að Vallanesi og kynna sér lífræna ræktun sem þar fer fram. Að því loknu verður Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað heimsóttur og skógrækt Skógræktar ríkisins á staðnum skoðuð.
Forsetahjónin munu einnig heimsækja Óbyggðasetrið í Fljótsdal en heimsókn þeirra til Austurlands lýkur svo með síðdegiskaffi með íbúum Fljótsdalshrepps sem boðið er til klukkan hálf sex að Skriðuklaustri.