Forsetinn klippti á borða við Lyngholt

Það var hátíðleg stund á Reyðarfirði í gær þegar viðbygging við leikskólann Lyngholt var formlega tekin í notkun. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, klippti á borðann ásamt Karli Óttari Péturssyni, bæjarstjóra.

Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri á Lyngholti, segir nýja húsnæðið verulega búbót. „Það er gríðarleg uppbygging sem búin er að eiga sér stað hér undanfarin fjögur ár. Við erum að fara úr mjög litlu starfsmannarými í um 100 fermetra pláss sem við getum loksins farið að skipuleggja eins og við viljum gera. Það er klárlega til hins betra fyrir hið faglega starf í leikskólanum.“

Framtíðarsýnin er tenging við Félagslund

Auk meira starfsmannarýmis bætist deild við leikskólann og ýmislegt nauðsynlegt rými á borð við geymslur, þvottahús og ræstikompur sem þurfti orðið að stækka. Í dag eru 115 nemendur við skólann en að sögn Lísu Lottu er aðstaðan nú orðin þannig að hægt er að taka við allt að 140 nemendum á 6 deildum.

Lísa Lotta segir að næst verði stefnt að því að tengjast betur við Félagslund, sem áður var félagsheimili Reyðfirðinga en hýsir nú hluta leikskólans. „Framtíðarsýnin er sú að við verðum tengd niður við Félagslund. Þá verðum við komin með sal og jafnvel sjöundu deildina ef þarf.“

Framkvæmdir reyna á

Framkvæmdir hafa staðið yfir á Lyngholti allt frá árinu 2017. Lísa Lotta viðurkennir að það hafi verið áskorun en í heildina hafi verkefnið þó gengið afar vel. „Þetta hefur verið erfitt á köflum. Það má segja að við höfum verið með iðnaðarmenn inni í skólanum í þrjú ár og þeir verða hjá okkur fram á haust því það er ýmislegt smálegt sem á eftir að klára. En alla jafna hefur þetta gengið rosalega vel. Þetta eru yndislegir einstaklingar sem hafa verið hérna hjá okkur. Þolinmóðir við okkur og við höfum reynt að sýna þeim sömu þolinmæði á móti.

Frekari uppbygging fyrirhuguð í Fjarðabyggð

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, var glaðbeittur við vígsluna. „Núna erum við, eftir nokkur ár, loksins komin með starfsemina hér á einn stað og með miklu betri aðstöðu fyrir starfsfólk, sem var ábótavant í eldra húsnæði. Það var líka orðin mikil þörf fyrir þetta því hér hefur orðið fjölgun á börnum, sem er lúxusvandamál að glíma við og er ekki bara hér á Reyðarfirði. Við erum að fara af stað í næsta verkefni er að byggja við leikskólann á Eskifirði.“

Hefð að fá forsetann

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, eiginkona hans, voru á ferð um Austurland í gær og tóku þátt í vígsluathöfninni. Það má segja að hefð sé fyrir því, en einn forvera Guðna í embætti, Vigdís Finnbogadóttir, kom austur og tók þátt í vígslu eldra húsnæðis leikskólans.

Börnin á Lyngholti tóku vel á móti forsetahjónunum, sungu fyrir þau og færðu þeim að gjöf fallega mynd af forsetanum sem þau höfðu litað. Eliza hafði á orði að Guðni væri með dálítið meira hár á myndinni en í raun, sem börnin tóku fúslega undir eftir að hafa skoðað fyrirmyndina dálítið.

lyngholt2

lyngholt3

lyngholt4

lyngholt5

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.