Fóru suður með sigur í huga

„Hópurinn hittumst svo í gær og menn eru strax farnir að huga að næsta ári,“ segir Guðmundur Einarsson, kennari í Egilsstaðaskóla og umsjónarmaður liðsins Oreo sem bar sigur úr býtum í vélmennakapphlaupi hinnar árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem haldin var í Háskólabíói fyrir helgi.



Er þetta í tólfta sinn sem keppnin er haldin og hefur hún notið vaxandi vinsælda meðal grunnskólanemenda undanfarin ár. Að þessu sinni var 21 lið víða af landinu skráð til keppni, sem er metfjöldi, en allt að tíu manns eru í hverju liði ásamt leiðbeinanda.

Markmið keppninnar er að efla færni og vekja áhuga ungs fólks á tækni og vísindum, en hún byggist á spennandi verkefnum sem jafnframt örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskipta- og forystuhæfni.

Liðið Myllarnir úr Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ sigraði heildarkeppnina og vann sér um leið þátttökurétt í úrslitakeppni FIRST LEGO League Scandinavia sem haldin verður í Bodø í Noregi í næsta mánuði.

Einnig er keppt í einstökum liðum og sem fyrr sagði sigraði Oreo frá Egilsstaðaskóla vélmennakapphlaupið, Grunnskólinn á Ísafirði í bestu hönnun og forritun vélmennis og bestu liðsheildina hlaut liðið frá Vættaskóla.



Mikill áhugi innan skólans

Er þetta annað árið sem Egilsstaðaskóli tekur þátt í keppninni og í ár samanstóð liðið af fimm strákum og fimm stelpum.

„Áhuginn er vaxandi og sérstaklega núna eftir þennan góða árangur,“ segir Guðmundur, en liðið var einnig tilnefnt til verðlauna fyrir besta rannsóknarverkefnið og heildarbikarinn.

„Þetta er mikilvægt tækifæri fyrir krakkana og mikill lærdómur, en þau læra forritun, þurfa að afla sér heimilda, leysa vandamál og kynna niðurstöður sínar – bara ýmislegt sem ekki er annars kennt í grunnskóla.“



Gat ekki verið betra

Guðmundur segir ferðina sjálfa hafa verið ákaflega skemmtilega.

„Við fórum í heimsókn í Útvarpshúsið og Þjóðminjasafnið svo eitthvað sé nefnt. Sjálfur keppnisdagurinn er ógleymanlegur með þéttskipaðri dagskrá frá átta til fjögur í Háskólabíói. Við fórum suður til þess að vinna og vorum sérstaklega að horfa á vélmennakapphlaupið sem við svo tókum auk þess að vera tilnefnd í hinum tveimur. Þetta gat því ekki verið betra.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.