Framkvæmdaleyfi fengið vegna virkjunar nýs vatnsbóls fyrir Djúpavog

Fyrr í þessum mánuði samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings að fela skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins að gefa út framkvæmdaleyfi vegna virkjunar nýs neysluvatnsbóls fyrir Djúpavog.

Íbúar Djúpavogs og nágrennis hafa hingað til fengið neysluvatn sitt úr opnu vatnsbóli ofarlega á Búlandsdal sem er ekki kjörstaða sökum mengunarhættu. Því hefur HEF-veitur leitað vatnsbóla með borunum um hríð og sú leit gefið góða raun og fannst vel nægjanlegt vatn í tveimur holum til að sinna þörf bæjarbúa til langs tíma.

Verkið kallar á að grafa lagnir frá borholunum að lokahúsi og þaðan áfram undir Búlandsána í átt að spennuvirki sem staðsett er við Teigarhorn. Þaðan beygir lagnaleiðin suður í átt að Búlandsdal og tengist þar núverandi vatnslögn. Í sama lagnaskurð verður einnig lagður ljósleiðari og rafmagnsheimæð.

Leitað var álits Minjastofnunar, Hafrannsóknarstofnunar og fleiri aðila sem ekki komu fram með athugasemdir aðrar en að forðast skyldi eftir bestu getu að raska botni Búlandsárinnar. Í því skyni mun HEF-veitur leita til verktaka sem reynslu hafa af greftri undir ár til að tryggja það eftir mætti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar