Framkvæmdaleyfi fyrir strandblakvelli fellt úr gildi: Ekki minni kröfur á sveitarfélagið en aðra

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi leyfi sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps fyrir gerð strandblakvallar í bænum. Nefndin telur að sveitarfélagið hafi stytt sér verulega leið þegar farið var af stað í framkvæmdina.


Hafist var handa við framkvæmdirnar við Lónabraut 4 haustið 2015 en þær stöðvaðar eftir að nágrannar gerðu athugasemdir. Í byrjun sumars var farið í grenndarkynningu og framkvæmdirnar samþykktar í byrjun september. Þá ákvörðum kærðu nokkrir nágrannar til úrskurðanefndarinnar.

Kærendur hafa frá upphafi mótmælt vellinum á þeim forsendum að sandfok frá honum skaði hús þeirra, út af ónæði frá iðkendum sem komi á eftir boltum og að varnargirðingar skerði útsýni þeirra.

Þeir gerðu strax síðasta haust athugasemdir við að framkvæmdirnar hefðu verið hafnar án nokkurrar grenndarkynningar eða samráðs við nágranna. Í kæru er því einnig haldið fram að fulltrúar í sveitarstjórn sem eigi beina hagsmuni að málinu hafi ekki vikið sæti og að nágrönnum hafi ekki verið kynntur kæruréttur þeirra þegar þeim var tilkynnt um útgáfu leyfisins í haust.

Sveitarstjórn svaraði því til í haust að sandurinn hefði lítið fokgildi og hægt væri að breiða yfir hann í verstu veðrunum, vísað var í lögreglusamþykkt varðandi hávaða og því hafnað að völlurinn skerti útsýnið.

Ekki minni kröfur þegar sveitarfélagið sjálft á í hlut

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að eftir grenndarkynningu hafi verið tekið tillit til athugasemda sem komið hafi fram. Áhrif vallarins eru hins vegar ekki stóra málið heldur hvernig staðið var að ferlinu.

Úrskurðarnefndin telur að undirbúningi framkvæmdaleyfisins hafi verið verulega áfátt og skilyrði ekki uppfyllt fyrir veitingu þess.

Samkvæmt lögum á sá sem óskar framkvæmdaleyfis að senda inn skriflega umsókn ásamt gögnum sem innihalda meðal annars afstöðumynd, lýsingu á framkvæmdinni, áætlun um framkvæmdatíma og hvernig verkið verði unnið og hvernig framkvæmdin falli að staðháttum og skipulagsáætlun.

Engin skrifleg umsókn barst heldur kom áhugafólk að máli við sveitarstjóra sem síðan gerði tillögu fyrir sveitarstjórn. Iðnfræðingur gerði grófa mynd en ekki lá fyrir uppdráttur í þeim mælikvarða sem krafist er.Þá fékk nefndin engin gögn um hvernig völlurinn ætti að falla að gildandi skipulagsáætlun.

Hjá Vopnafjarðarhreppi hefur ekki tíðkast að gefa út formlegt framkvæmdaleyfi þegar sveitarfélag eigi í hlut og að þessu sinni átti það lóðina, annaðist framkvæmdina og á völlinn. Úrskurðarnefndin minnir á að ekki séu gerðar minni kröfur þegar sveitarfélagið standi sjálft að framkvæmdum. Að ekki sé gefið út formlegt leyfi gangi í berhögg við reglugerð um framkvæmdaleyfi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.