Framtíð RÚV í vj fréttamönnum

Ríkisútvarpið ætlar að leggja aukna áherslu á svokallaða „vj-fréttamenn“ það eru fréttamenn sem geta bæði myndað og sagt fréttir. Hlutur frétta af landsbyggðinni í landsfréttum á síst að minnka þótt svæðisbundnar útsendingar leggist af.

 

ImageNýverið var þremur starfsmönnum RÚV á Austurlandi (RÚVAust) sagt upp störfum og til stendur að selja húsnæðið á Egilsstöðum. „Ef viðunandi verð fæst verður leitað nýrra leiða til að skapa fréttamanni á Austurlandi viðunandi vinnuaðstöðu,“ segir í svari útvarpsstjóra við fyrirspurn agl.is um framtíðaráform útvarpsins í fjórðungnum..

Þar kemur fram að markmiðið með endurskipulagningu svæðisstöðva RÚV sé að „minnka fastan kostnað vegna  húsnæðis, tækjabúnaðar og mannskaps en halda engu að síður áfram öflugri fréttamiðlun af landsbyggðinni.“

Breytingarnar eiga meðal annars að auka hlut frétta af landsbyggðinni á landsrásum útvarps og sjónvarps með nýjum vinnubrögðum. Þar er vísað til „vj-fréttamannanna“ sem eru fréttamenn sem eru sjálfbjarga í tæknilegri úrvinnslu en "VJ" stendur fyrir "Video Journalist" eða "myndbandsfréttamann". Gísli Einarsson, í Borgarnesi, og Sighvatur Jónsson, í Vestmannaeyjum, eru þar nefndir sem dæmi. Einnig stendur til að bæta í þennan hóp fréttamönnum sem hafi aðsetur í Efstaleiti en geti „með stuttum fyrirvara farið hvert á land sem er og fullunnið og sent frá sér efni til flutnings.“

Svæðisbundnum útsendingum verður hætt en haldið í fastan landsfréttatíma á hverjum degi, annað hvort á Rás 1 eða Rás 2, sem áfram verður stýrt frá Akureyri. Í haust er stefnt á að bæta við vikulegum sjónvarpsþætti með fréttum og dægurefni af landsbyggðinni. Fréttamaður verður áfram búsettur á Egilsstöðum og myndatökumaður í verktöku, að sinni.

„Þrátt fyrir sársaukafullan niðurskurð og uppsagnir góðra starfsmanna er það eindreginn vilji RÚV að halda úti öflugri fréttamiðlun af landsbyggðinni og einnig verulegum hluta þeirrar dagskrárgerðar sem þar hefur farið fram. Ný tækni og vinnubrögð gera RÚV kleift að vinna meira efni með minni tilkostnaði.“

Ásgrímur Ingi Arngrímsson, fyrrverandi fréttamaður og stöðvarstjóri á Austurlandi, gagnrýndi hugmyndina um „vj-fréttamennina“ í viðtali við Austurgluggann fyrir helgi og benti á að menn eins og Gísli Einarsson væru ekki á hverju strái.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.