Franska uppbyggingin hefur gert okkur enn stoltari af Fáskrúðsfirði

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar afhenti nýverið forsvarsmönnum Minjaverndar viðurkenningar fyrir gott samstarf við íbúa, fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu við uppbyggingu frönsku húsanna á Fáskrúðsfirði. Uppbyggingin skipti máli fyrir bæði sjálfsálit íbúa og atvinnu í bænum.


„Þetta hefur eflt okkur sem íbúa og gert okkur enn stoltari af staðnum, sveitarfélaginu, landi okkar og sögu,“ sagði Páll Björgvin í hófi sem haldið var í Franska spítalanum nýveri í tilefni þess að endurgerð byggingarinnar fékk evrópsk verðlaun fyrir varðveislu menningararfs nýverið.

Þungamiðja frönsku þyrpingarinnar er Franski spítalinn og Læknishúsið sem húsa hótel, veitingastað og safn um veiðar Frakka við Íslandsstrendur. Við hliðina eru Sjúkraskýli, Kapella og Líkhús sem Frakkar reistu og Minjavernd endurgerði einnig. Þá var í byrjun sumars tekin í notkun nýbygging með 50 gistirýmum.

„Franska verkefnið hér á Fáskrúðsfirði hefur eflt alla ferðaþjónustu og aukið fjölbreytileika í samfélaginu hér á Fáskrúðsfirði, Fjarðabyggð og Austurlandi öllu,“ sagði Páll Björgvin. Endurgerðu húsin og safnið voru opnuð sumarið 2014 og sóttu þau þá 11 þúsund gestir. Í ár er búist við að þeir verði rúmlega 13 þúsund og þá eru gestir hótelsins sem skoða það ekki taldir með.

Páll Björgvin sagði miklu máli skipta að halda sögunni um veiðar Frakka við Ísland á lofti. „Það var gert út frá bæjum á Norðurströnd Frakklands og veiðarnar höfðu mikla efnahagslega þýðingu fyrir samfélögin á þessum slóðum.

Engu að síður var þetta saga örbirgðar og örlaga. Haldið var á Íslandsmið í febrúar ár hvert og veitt sleitulaust fram á haust. Aðbúnaður um borð var bágborinn og úthaldið bæði langt og strangt. Frönsku sjómennirnir báru lítið úr bítum og áttu margir hverjir ekki afturkvæmt heim.

Með þessu verkefni eru minningar, menning og saga sett saman í órjúfanlega heild til að halda uppi merkjum þessa tíma sem hafði svo mikil áhrif hér á Fáskrúðsfirði sem og í Frakklandi“

Tækifærið var nýtt til að þakka Minjavernd fyrir samstarfið við enduruppbygginguna. „Frönsku húsin og það safn sem hér er risið er eitt það tæknilegasta og glæsilegasta sem til er á landinu. Við alla endurgerð og uppbyggingu Minjaverndar hefur verið gengið þannig til verka að mikill sómi er að.“

Páll Björgvin fyrir miðju ásamt Þresti Ólafssyni, formanni stjórnar Minjaverndar til vinstri og Þorsteini Bergssyni, framkvæmdastjóra Minjaverndar, til hægri.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.