Frásögn um CBD-efni bjargaði ekki bílprófinu
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann til að sæta 18 mánaða sviptingu ökuleyfis og greiða 200.000 krónur í sekt fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna á Fagradal sumarið 2022. Maðurinn hélt því fram að hann hefði neytt kannabisefnis án virks vímuefnis.Maðurinn var stöðvaður síðdegis á mánudegi í sumarbyrjun 2022 af þremur lögreglumönnum við umferðareftirlit á Dalnum eftir að hann tók fram úr bíl á heilli línu. Þegar farið var að ræða við manninn virtist lögregluþjónunum hann undir áhrifum vímuefna, með samandregin sjáöldur og munnþurrk.
Maðurinn neitaði sýnatöku á staðnum sem þýddi að hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina á Egilsstöðum. Í dóminum er haft eftir lögregluþjónunum að maðurinn hafi verið samvinnuþýður, kurteis og skýr í framburði. Á lögreglustöðinni hafi hann viðurkennt að hafa neytt kannabis „skömmu áður“ og reykt jónu um helgina. Hann hafnaði því þó að vera undir áhrifum. Honum var á móti bent á að í ljósi frásagnar sinnar mætti hann ekki stjórna ökutæki.
Á stöðinni samþykkti maðurinn að veita munnvatnssýni. Hann segist þar hafa heyrt lögreglumenn tala um að prófið hefði verið gallað. Í skýrslum lögreglu er skráð að það hafi verið lélegt vegna skorts á vökva en að lokum gefið jákvæða niðurstöðu. Maðurinn var í kjölfarið færður til læknis sem tók blóðsýni. Við greiningu á því greindist virka efnið THC.
Lögreglan sendi manninum síðar sekt vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Hann neitaði að borga sektina og þannig vatt máli uns það endaði fyrir dómi. Þar fór verjandi hans fram á sýknu en til vara að maðurinn yrði ekki sviptur ökuréttindum.
Sagðist hafa keypt CBD efni
Maðurinn sagði rangt eftir sér haft um efnanotkunina. Fyrir dómi bar hann að hann hefði ekki neytt kannabiss með virka efninu THC heldur CBD-efnis sem hann hefði keypt í ótilgreindri verslun. Hvernig THC-efnið hefði þó komist í líkama sinn gat hann ekki skýrt. Maðurinn hélt því einnig fram að munnvatnssýnið hefði verið neikvætt eða gallað og hafði eftir lögreglu að læknirinn hefði misst blóðlegginn á gólfið í sýnatökunni. Sjálfur hefði hann ekki fylgst með vegna blóðfælni.
Hvorki lögregluþjónarnir né læknirinn könnuðust við neina hnökra við sýnatökuna. Þá bentu lögregluþjónarnir á að munnvatnssýnið væri ekki það sem réði úrslitum, heldur væri notað til að kanna þörfina á blóðsýninu. Þá hefði maðurinn aldrei minnst á CBD-efnið meðan hann var með þeim. Lyfjafræðingar sögðu að ekki hefði verið leitað að CBD í sýninu en það magn THC sem fannst væri slævandi. Lögreglumennirnir sögðu manninn ekki hafa verið í „bullandi vímu.“
1,4 milljón í málskostnað
Í niðurstöðu dómsins segir að þrátt fyrir neitun mannsins bendi rannsóknargögn til sektar, þannig hafi ekki komið fram sem hnekki vímuefnamælingunum. Lögin séu á þann hátt að bannað sé að stjórna ökutæki undir áhrifum.
Refsing mannsins er svipting ökuréttinda í eitt og hálft ár auk 200.000 króna sektar. Hann þarf einnig að greiða lögmanni sínum um 1,3 milljón í málsvarnarlaun auk sakarkostnaðar upp á um 100 þúsund.