Frystihúsið prufukeyrt 15. nóvember: Aldrei fleiri starfsmenn - Myndir
Hátt í 150 starfsmenn unnu að byggingu nýs frystihúss Eskju á Eskifirði í dag og hafa aldrei verið fleiri þar. Stefnt er að því að prufukeyra húsið um miðjan næsta mánuð með síld.
„Það eru 146 starfsmenn á verkstaðnum í dag. Það er fjöldi sem við höfum ekki séð áður,“ segir Pálmi Benediktsson, byggingarstjóri.
Þá eru ótaldir tugir manna sem vinna við forsmíði tækja, eininga og hönnun sem dreifast meðal annars á Akranes, Ísafjörð, Akureyri og Færeyjar.
Pálmi segir verkið á áætlun en enn er unnið hörðum höndum að öllum verkþáttum. „Það er margt sem okkur langar að vera búnir með fyrir 15. nóvember en nú þurfum við að forgangsraða til að vera klárir með það sem skiptir máli en geyma það sem skiptri minna máli. Þann dag ætlum við að reyna að keyra síld í gegnum húsið og vonandi gengur það eftir.“
Aðaláherslan þessa dagana er á ýmiss konar lagnir. Á eyrinni við frystihúsið er búið að draga út sjólagnir sem á að leggja í sjó á næstu dögum.
Síðustu þakplöturnar eru að fara á sinn stað og loka á húsinu í þessari viku. Enn er unnið í vélasalnum og uppsetning á frystitækjum er að klárast. Þá er byrjað á lyftuhúsi þar sem aðalinngangur hússins verður.