Furðufugl í Fljótsdal
Sefþvari, sjaldséður flækingsfugl á Íslandi, heiðraði Fljótsdælinga með nærveru sinni um helgina. Sjaldgæft er að fuglinn sjáist þar sem hann er frekar styggur.„Það var Fljótsdælingur sem tók eftir honum á föstudag og lét okkur vita. Við fórum og náðum að sjá hann þá og aftur í gær í betri birtu,“ segir Halldór W. Stefánsson, fuglafræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.
Sefþvari (Botaurus stellaris) er vaðfugl af hegraætt sem heldur til í suður-Evrópu en er farfugl þar sem vatn frýs á veturna. Sjaldgæft er að slíkir fuglar flækist til Íslands, þetta mun vera í sjöunda eða áttunda skiptið sem það gerist.
Þegar sefþvarinn verður þess var að fylgst sé með honum stendur hann kyrr með gogginn upp í loftið þannig hann rennur saman við umhverfið. Þess vegna er algengara að heyra í honum en sjá hann.
Halldór segir að sögur séu til um að fuglinn hafi áður sést upp í Fljótsdal en það er ekki staðfest. Fuglinn hafi verið laumulegur um helgina og fælinn í gær og að lokum hafi hann flogið út dalinn og horfið fuglaáhugafólki sem þar var á ferð sjónum.
Mynd: Lára Guðmundsdóttir