Fylgjast með vexti eldisfiskanna í beinni
Níu störf eru orðin til á Djúpavogi við fóðrun í fiskeldi á Austfjörðum og annarri umsjón við vöxt fiskanna. Ný starfsaðstaða var tekin þar í notkun fyrir helgi.Aðstaðan er í gömlu sláturhúsréttinni á Djúpavogi en þar var áður geymslusvæði fyrir Búlandstind. Unnið hefur verið að endurbótum á svæðinu undanfarið ár en Alfa Freysdóttir hjá Grafít leiddi hönnunina.
Flutt var inn í aðstöðuna á fimmtudag. Þar eru núna fjögur vinnuborð og pláss fyrir það fimmta, en tveir einstaklingar skipta með sér borði þar sem starfsmenn ganga vaktir þar sem hver vinnur 12 tíma á dag en á síðan viku í frí. Frá hverju borði er fóðrun stýrt á tveimur eldissvæðum en eldissvæðin eystra eru alls sjö í dag.
Eftir sameiningu Laxa Fiskeldis og Fiskeldis Austfjarða, sem í byrjun sumars fékk nafnið Kaldvík, hefur allri fóðruninni eystra verið stýrt frá Djúpavogi. „Við byrjuðum tveir hér og fórum fyrst út á sjó hvern dag því fóðruninni var stýrt úr prömmum. Við fórum í land veturinn 2018.
Frá árinu 2020 hefur fjölgað um eina vakt, eða tvo starfsmenn, á hverju ári. Við erum núna alls níu sem vinnum við fóðrunina, átta starfsmenn og ég sem verkstjóri,“ segir Birgir Thorberg Ágústsson, deildarstjóri fóðrunar hjá Kaldvík.
Hann segir næstu skref vera að efla vöktun með heilsufari eldisfiskanna. Búið er að semja um kaup á gervigreindarbúnaði sem mælir stærð fiskanna og metur aðra þætti, getur meðal annars talið laxalýs og flokkað þær.
„Við köllum þetta ræktunarmiðstöð. Allt sem hjálpar til við að meta vöxt og fóðrun fellur hér undir. Við sjáum fram á miklar breytingar næstu 5-10 ár þar sem gervigreind taki við fóðrun. Stefnan er ekki að fækka starfsfólk heldur að störfin breytist þannig betur verði fylgst með fiskinum. Þvert á móti eru líkur á að störfum hér fjölgi samhliða vöktun á heilsufari fiskanna.
Með myndavélunum sem við erum að fá núna sjáum við fiskana vaxa í beinni. Það hjálpar okkur til að bregðast við ef ekki er allt með felldu.“
Stefnt er að hafa opið hús í ræktunarmiðstöðinni síðar þegar hún er fullbúin.
Þórarinn Fannar Bielecki Steinunnar, fóðrari við starfsstöð sína.