„Fyrirmynd annarra kvenna á Austurlandi“

Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari Fimleikadeildar Hattar, hlaut í gær hvatningarverðlaun Tengslanets austfiskra kvenna (TAK).



Tengslanet austfirskra kvenna eru samtök kvenna á Austurlandi, en samtökin hefja nú tíunda starfsár sitt. Hlutverk TAK er að efla þekkingu og samstarf kvenna, vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja konur í starfi og leik.

Á aðalfundi félagsins ár hvert veitir TAK hvatningarverðlaun til konu á Austurlandi sem talin er hafa sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi, menningu og samfélagi ásamt því að skara fram úr í störfum sínum í þágu kvenna.

Verðlaunin eru veitt í sjöunda sinn Í gær en áður hafa Þórdís Bergsdóttir, Kristín Scheving, Lára Eiríksdóttir, Auður Anna Ingólfsdóttir, María Ósk Kristmundsdóttir og Jóna Árný Þórðardóttir hlotið verðlaunin.


Setur markið hátt

María Kristmundsdóttir, ritari TAK, segir að Auður Vala sé fyrirmynd annarra kvenna á Austurlandi og hvatningarverðlaun séu viðurkenning á því, en einnig hvatning til að halda ótrauð áfram.

„Auður Vala hafi í 20 ár verið frumkvöðull, hugsjónarkona og fyrirmynd fyrir aðrar konur á Austurlandi. Með áræðni og þrautsegju hefur hún byggt upp öflugt starf í fimleikadeildinni.

Árangur fimleikafólks Hattar hefur verið eftirtektarverður á landsvísu, skapað stolt og metnað hjá iðkendum og íbúum svæðisins. Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir takmarkaða aðstöðu til iðkunar fimleika á starfssvæði Hattar.

Auður Vala hefur sýnt framúrskarandi leiðtogahæfileika sem einkennast af ákveðni, þolinmæði og drifkrafti. Hún fær iðkendur, þjálfara, foreldra og samfélagið allt í lið með sér með því að varða veginn til árangurs. Hún setur markið hátt og vinnur af krafti og dugnaði að markmiðum sínum,“ segir María.


Foreldrastarf mikilvægt

„Það er mér mikils virði að fá þessa viðurkenningu og þakka ég TAK fyrir að hafa tekið eftir starfi fimleikadeildarinnar undanfarin ár,“ sagði Auður Vala í samtali við Austurfrétt í morgun.

„Maður gerir sitt besta hverju sinni og fimleikadeildin er umvafinn duglegum foreldrum sem taka þátt í starfinu af fullum hug og væri ég ekkert án þeirra.

Þetta er stærsta stúlknagreinin á Austurlandi, sem og á landsvísu, og því mikilvægt að hlúa að ungum stúlkum og hvetja þær til jákvæðrar hreyfingar, takast á við skemmtileg verkefni og styrkja þær til að takast á við lífið. Að ógleymdum drengjunum sem vaxa og dafna í sömu íþrótt og fjölgar á ári hverju.“

Ljósmynd: Frá vinstri Auður Vala Gunnarsdóttir og Tinna Halldórsdóttir, fráfarandi formaður TAK.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.