Fyrrverandi sölustjóri BM Vallár dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt

bm_valla.jpgFyrrverandi sölustjóri BM Vallár á Reyðarfirði var í vikunni dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og til að greiða fyrirtækinu 8,2 milljónir króna, með dráttarvöxtum, í skaðabætur fyrir að hafa dregið sé fé frá fyrirtækinu. Hluta fjárins notaði hann til að kaupa sér hús. Sölustjórinn bar því við að á hann hefði verið lagðar auknar starfsskyldur og ekki komið á móts við ítrekaðar óskir hans um endurskoðun launa eftir það.

 

Brot sölustjórans fyrrverandi ná yfir þriggja ára tímabil, frá 2006-2009. Hann seldi viðskiptavinum meðal annars steinsteypu og hellur og lét þá millifæra söluandvirðið á sinn eigin reikning. Alls er áætlað að hann hafi þannig dregið sér 8,2 milljónir króna.

Stærstur hluti upphæðarinnar, 4,5 milljónir, eru viðskipti við Viðhald fasteigna ehf. en sölustjórinn nýtti sér viðskipti við fyrirtækið til að kaupa af því hús á Egilsstöðum. Sölustjórinn játaði alla ákæruliði skýlaust nema þennan. Reikningar frá fyrirtækinu væru ófullnægjandi og ákæran í liðnum óljós en það taldi dómarinn ekki.

Sölustjórinn tók við starfsskyldum annars starfsmanns BM Vallár snemma árs 2006. Það var honum ekki bætt við hærri launum, þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta til eigenda fyrirtækisins sem svöruðu með þögninni einni. Því lét hann ógert að færa peninginn til baka.

„Þetta sinnuleysi ákærða megi m.a. rekja til þess að fyrirtækið hafi þverskallast við að bæta launakjör hans vegna aukinna starfa hans og að lokum hafi langlundargeð hans verið þorrið.“ Síðar meir tók Arion-banki við ráðstöfun fjár sölustjórans þannig hann gat ekki greitt til baka.

Stjórnarformaður BM Vallár hafnaði því að starfsskyldurnar hefðu aukist á starfstímanum. Sú fullyrðing virðist reyndar ekki eiga sér stoð í framburði annarra starfsmanna BM Vallár á Austurlandi. Stjórnarformaðurinn bætti við að aldrei hefði ákærða verið lofað launahækkunum. Dómurinn mat þessar málsbætur ákærða „haldlausar“.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að sölustjórinn eigi sér ekki aðrar málsbætur en að hafa játað brot sín. Hann hafi gegnt trúnaðarstarfi, verið æðsti yfirmaður í fjórðungnum en staðið fyrir brotum sem stigmögnuðust þau þrjú ár sem hann var í starfi. Þar með hafi hann að miklu leyti látið vinnuveitanda fjármagna íbúðarhús sitt.

Sölustjórinn fékk sjö mánaða fangelsisdóm en rétt þótti að skilorðsbinda fimm mánuði af refsitímanum þar sem hann átti ekki sakaferil að baki. Hann var að auki dæmdur til að greiða allan sakakostanað, yfir 700 þúsund krónur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.