Fyrsta flóttamannafjölskyldan komin til Fjarðabyggðar

Sveitarfélagið Fjarðabyggð tók á þriðjudaginn í síðustu viku á móti fyrstu flóttamönnunum sem koma þangað. Það er sjö manna fjölskylda frá Írak sem búa mun á Reyðarfirði.


Móttakan flokkast sem fjölskyldusameining. Fjölskyldufaðirinn hefur verið um allnokkurt skeið á Íslandi eftir að hafa fengið stöðu sem hælisleitandi.

Hann hefur nú fengið stöðu sem flóttamaður ásamt fjölskyldu sinni en kona hans og börn þeirra fimm komu hingað frá Kúveit. Þegar þau fá stöðu sem flóttamenn fá þau um leið íslenskt ríkisfang.

Undirbúningur að komu flóttafólksins hefur staðið um nokkurt skeið en Fjarðabyggð er í hópi sveitarfélaga sem síðsumars 2015 lýstu sig tilbúin að taka á móti flóttamönnum. Þá fóru hlutirnir í gang milli velferðarráðuneytisins og sveitarfélagsins.

Metum þarfirnar

Ráðuneytið útvegar írösku fjölskyldunni húsnæði á Reyðarfirði en hún nýtur stuðnings ríkisins, Rauða krossins og fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar við að koma sér fyrir og aðlagast samfélaginu. „Við ætlum að vanda okkur við móttöku fólksins,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri.

Þá er hafinn undirbúningur að móttöku fjögurra manna sýrlenskrar fjölskyldu sem lýst hefur yfir áhuga á að koma austur.

Aðspurður hvort sé von sé á fleiri flóttamönnum í sveitarfélagið, þá mögulega úr hópi svokallaðra kvótaflóttamanna, segir hann ekkert ákveðið. „Við ætlum að byrja á að sjá hvaða þarfir þetta fólk hefur og hvort við getum ekki veitt þá aðstoð sem þarf.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fjarðabyggð tekur á móti flóttamönnum en sumarið 1999 var tekið á móti á þriðja tug Kosovo-Albana sem flúið höfðu undan árásum Serba til Makedóníu. Þeir snéru flestir heim eftir að stríðinu þar lauk.

Mynd úr safni Rauða kross Íslands.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.