Fyrsta REKO afhendingin á laugardag
Fyrsta afhendingin undir merkjum REKO á Austurlandi, þar sem bændur og smáframleiðendur matvæla og kaupendur eru tengdir saman, verður á Egilsstöðum á laugardag. Níu framleiðendur munu þar afhenda vörur sínar.„Austfirðingar taka þessu greinilega fagnandi. Við sjáum mikinn áhuga kaupenda, í raun meiri en verið hefur í öðrum landshlutum,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, verkefnisstjóri REKO hjá Matarauði Íslands.
Hugmyndafræðin er finnsk og gengur út á að nýta rafræna tækni, Facebook-hópa, til að tengja saman framleiðendur og kaupendur. Markmiðin er að vekja athygli á staðbundinni matvælaframleiðslu og tryggja bændum og framleiðendum meiri arð af framleiðslu sinni með að sleppa milliliðum.
Kaupendur leggja fram pantanir á Facebook og fá afhent í samræmi við það sem þeir panta. Greitt er fyrirfram og ekki er hægt að kaupa aukalega á staðnum. Auglýstur er staður og stund til afhendingar, sem að þessu sinni verður í anddyri Miðvangs 1-3 á Egilsstöðum, framan við Hús handanna milli klukkan 12 og 13 á laugardag.
„Það er líka afar ánægjulegt að fólk pantar með athugasemd undir færslum framleiðenda í stað þess að senda framleiðendum einkaskilaboð, sem hefur verið raunin í öðrum landshlutum og við erum að reyna að breyta.
Það er hvetjandi að sjá aðra panta, jafnvel vini og vandamenn. Það eykur líkurnar á að maður panti sjálfur. Við erum svo mikil hjarðdýr! Eins auðveldar það framleiðendum að halda utan um pantanirnar og allir geta séð svör við spurningum.“
Framleiðendur koma víða af Austurlandi. Meðal þess sem hægt er að panta eru kartöflur frá Setbergi í Fellum, lambakjöt og andaregg frá Síreksstöðum í Vopnafirði, kæfa frá Breiðdalsbita og geitakjöt frá Háhól í Nesjum.
Frá REKO afhendingu í Reykjavík. Mynd: Matarauður Íslands