Fyrsti tarfur féll eftir tvær mínútur

Hreindýraveiðar hófust í gær, en heimilt er að hefja veiðar á törfum frá og með 15. júlí. Vel er fylgst með veiðunum og hvatt til þess að farið sé varlega vegna aðstæðna á veiðislóð.

Alls voru 9 tarfar veiddir í gær og var sá fyrsti felldur skammt frá Djúpavogi, tvær mínútur yfir miðnætti. Að sögn Jóhanns Guttorms Gunnarssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, var haldið til veiða á 6 af 9 veiðisvæðum. Þó náðu ekki allir veiðimenn sem héldu af stað í gær að ljúka verkefninu.

„Það var þoka hér niðri á fjörðum. Það þurftu því einhverjir að fara aftur og það er búið að skrá 10 veiðimenn á veiðar í dag. Ég heyri að tarfarnir séu vænir. Sá þyngsti sem mér hefur verið sagt frá var 103 kíló sem er bara mjög þungur tarfur svona um miðjan júlí.“


Minni kvóti en í fyrra

Frá 15. júlí til 30. júlí má einungis veiða tarfa, og á þeim tíma því aðeins séu þeir ekki í fylgd með kúm og að veiðin trufli ekki sumarbeit kúa og kálfa. Frá 1. ágúst er heimilt að veiða kýr einnig en þeim tilmælum er beint til veiðimanna að veiða aðeins geldar kýr fyrstu tvær vikurnar til að tryggja enn frekar að kálfar séu orðnir sjálfbjarga, en veiði á þeim er óheimil. Tarfatímabilinu lýkur síðan 15. ágúst og veiði á kúm lýkur 20. september. Frávik frá þessu er að nokkur dýr eru felld í nóvember á veiðisvæðum 8 og 9, sem eru í Hornafirði, vegna sérstakra aðstæðna þar. Alls er í ár heimilt að veiða 1.325 hreindýr, 805 tarfa og 520 kýr, sem er 126 dýrum færra en var í fyrra.

Nokkuð strangt utanumhald er með hreindýraveiðum hérlendis. Veiðimönnum er skylt að hafa með sér löggiltan leiðsögumann, sem ber svo að tilkynna til Umhverfisstofnunar hvenær haldið er til veiða og eins þegar veiði er lokið. Að auki ber að skila sérstökum skýrslum þar sem fram kemur hvar dýr er fellt, þyngd og fleiri upplýsingar.


Gott að halda fyrr en síðar til veiða

Að sögn Jóhanns er samstarf Umhverfisstofnunar, leiðsögumanna og veiðimanna með ágætum, en markmið upplýsingaöflunar stofnunarinnar er meðal annars að geta dreift álagi við veiðar. Til dæmis ef vitað er um ákveðinn fjölda veiðimanna á tilteknum svæðum að geta þá ráðlagt öðrum að leita annað. Hann segir líka mikilvægt að veiðimenn hugi að því að halda til veiða fyrr en síðar því það geti myndast ákveðin örtröð síðustu daga og vikur veiðitímans. Þó sé líka ástæða til að fara varlega á þessum tíma vegna þess hve mikinn snjó sé enn að finna víða á veiðislóð.

„Það er oft rólegt og gott að veiða fyrst á tímanum því þá eru bara færri á ferðinni. En við biðjum um að það sé farið með gát um landið. Það er óvanalega mikill snjór ennþá, gæti verið blautt og því ástæða til að menn fari sérstaklega varlega því slóðir geta verið erfiðar sumsstaðar.“


Jóhann Guttormur Gunnarsson (t.v.) ásamt ónefndum tarfi. Ástæða er til að óska honum til hamingju með Englandsmeistaratitilinn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.