Gagnrýna Síldarvinnsluna fyrir skamman fyrirvara á lokun bolfiskvinnslunnar á Seyðisfirði

Sveitarstjórnarfulltrúar í Múlaþingi gagnrýna hversu skammur fyrirvari Síldarvinnslan hefur á lokun bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði. Hann þýði að erfiðra sé fyrir bæði starfsfólkið sem missir vinnuna og sveitarfélagsins fyrir hönd samfélagsins á staðnum að bregðast við.

Síldarvinnslan tilkynnti á þriðjudaginn að bolfiskvinnslunni verði hætt þann 30. nóvember. Þar með missa 30 manns vinnuna. Fyrirtækið hefur þó lýst að fólkið geti fengið vinnu á öðrum starfsstöðvum þess í Grindavík eða Norðfirði auk þess sem einhver störf séu laus við fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði.

Umræðum um tilkynninguna var bætt við sem sérstökum dagskrárlið á fundi sveitarstjórnar Múlaþings í gær. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, fylgdi liðnum eftir þar sem tilkynning Síldarvinnslunnar var lögð fram til kynningar.

„Það kom mér kannski ekki á óvart að að þessu kæmi en það kom mér á óvart hvernig þetta var gert. Það er ljóst að út falla allmörg heilsársstörf sem skipta verulegu máli. Fyrirvarinn er mjög skammur sem þýðir að það er erfiðra fyrir þá einstaklinga sem þurfa að leita annarra starfa að vinna almennilega að því,“ sagði hann.

Þarf að auka fjölbreytni í atvinnu á Seyðisfirði


Í tilkynningu Síldarvinnslunnar segir að þróun vinnslunnar á Seyðisfirði hafi ekki haldið í við breytingar og nú sé komið að fjárfestingum fyrir hundruð milljóna króna til að bregðast við breytingum á mörkuðum í takt við hegðun neytenda. Á sama tíma hafi fyrirtækið, með kaupunum á Vísi í Grindavík í fyrrasumar, eignast afar tæknivædda vinnslu sem unnið geti meira hráefni.

Þar lýsir fyrirtækið sig reiðubúið að vinna með sveitarfélaginu og öðrum lykilaðilum á staðnum að mótvægisaðgerðum. Björn og fleiri kjörnir fulltrúar úr Múlaþingi funduðu með forstjóra Síldarvinnslunnar á þriðjudag og annar fundur með fleiri fulltrúum, þar á meðal úr heimastjórn, er áformaður í dag.

„Það kom fram vilji og hugur hjá Síldarvinnslunni til að stuðla að framtíðaratvinnuuppbyggingu með sveitarfélaginu. Við höfum rætt hér að það þyrfti að auka fjölbreytileikann á Seyðisfirði þannig bærinn væri ekki háður einni eða fáum atvinnugreinum.

Ég vil samt árétta að þetta voru mér mikil vonbrigði. Innst inni vonaði ég að starfseminni yrði haldið áfram þótt maður væri farinn að skynja nokkuð ákveðið að þessu yrði hætt,“ sagði Björn.

Samfélagið enn í sárum eftir skriðurnar


Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, sagði Síldarvinnsluna veita samfélagi, sem væri enn í sárum eftir náttúruhamfarir, þungt högg.

„Þetta er högg fyrir samfélag sem er enn á hnjánum eftir náttúruhamfarir. Ég vonaði að sterkt fyrirtæki eins og Síldarvinnslan tæki slaginn með okkur í að byggja samfélagið upp. Ég harma að það sjái ekki tækifærin sem þarna liggja í góðri höfn með góða þjónustu. Vinnslan hefur ekki verið rekin með tapi. Framtíðaráformin að baki þessari ákvörðun eru einungi tekin út frá rekstrarsjónarmiðum meðan samfélagssjónarmiðin eru hundsuð.

Ég vona að Síldarvinnslan vinni með okkur að alvöru mótvægisaðgerðum. Í orðum forstjóra hennar í fréttum var dálítið mikið um ef og kannski. Við höfum verk að vinna og verðum að nýta tímann því við megum ekki missa margar fjölskyldur úr bænum.“

Hún gagnrýndi einnig samskipti við starfsfólkið á þriðjudag. Almannatengslafyrirtæki sendi fréttatilkynningu á fjölmiðla sem birtu hana áður en fundur með starfsfólki hófst. Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði að um innanbúðarmistök hefðu verið að ræða og baðst strax afsökunar á þeim.

„Að starfsmenn fái fréttirnar á fréttamiðlum fyrir fund eru svakaleg skilaboð til fólks sem jafnvel hefur unnið þar í meira en 20 ár. Ég skil ekki að fyrirtæki sem rekið er af myndarbrag ástundi slík vinnubrögð þegar teknar eru sárar ákvarðanir.“

Kvótakerfið fer illa með landsbyggðina


Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sagði ákvörðunina sorgarfréttir fyrir bæði fólkið sem missir vinnuna og samfélagið á Seyðisfirði. „Samráð er vinsælt hugtak en innantómt um þessar mundur. Samráðið þarf að vera raunverulegt, ekki bara eftir að skaðinn er skeður,“ sagði hún. Hún gagnrýndi einnig orð Gunnþórs um að Seyðisfjörður gæti átt tækifæri í fiskeldi og minnti á skoðanakönnun sem sýndi að 75% íbúa staðarins væru á móti því.

Oddviti framboðsins, Helgi Hlynur Ásgrímsson, sagði lokunina enn eina birtingamynd þess að kvótakerfið færi illa með sjávarbyggðir landsins. „Það eru orðnir of miklir peningar í stærstu fyrirtækjunum. Samsteypa Síldarvinnslunnar og Samherja á orðið 20-25% af aflaheimildunum. Kvótakerfið er að fara gríðarlega illa með landsbyggðina því velferð fólks í litlum samfélögum hefur ekkert að segja. Þetta er enn einn dómurinn um að kerfið er ekki gott.

Að einhverju leyti gerir tæknivæðingin stærri einingar hagkvæmari. Mér finnst það ekki líta vel út að Síldarvinnslan ætli að vinna allan sinn bolfisk í Grindavík. Mjög stórs hluta hans er aflað hér austanlands. Þá þarf annað hvort að keyra með hann eða sigla. Um leið minnkar þetta fraktflutninga frá Seyðisfirði.“

Skoraði á Síldarvinnsluna að endurskoða ákvörðunina


Björg Eyþórsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar og fulltrúi Framsóknarflokks, sagði ákvörðunina þunga fyrir fólkið sem missi atvinnu og öryggi en einnig samfélagið. Forgangsatriði væri að tryggja heilsárs störf. Rætt hefði verið um vannýtt tækifæri við komur skemmtiferðaskipa en þau kæmu ekki allan ársins hring. Hún sagði hjarta sitt titra í tvær áttir, annars vegar með meirihluta bæjarbúa sem vildu hafa eitthvað um það að segja hvers konar atvinna væri byggð upp eða taka tilboðum um trygga atvinnu. Þar með væri hún þó ekki að segja að fiskeldi væri núna eina vonin.

Vilhjálmur Jónsson, einnig fulltrúi Framsóknarflokks, hvatti til þess að Síldarvinnslan endurskoðaði ákvörðun sína um að loka vinnslunni í nóvember en kæmi í staðinn af krafti í vinnu um uppbyggingu atvinnu á Seyðisfirði. Síldarvinnslan væri öflugur bakhjarl í slíka vinnu ef hún gæfi sig að því.

„Núna skiptir máli að endurskoða ákvörðunina um lokunina og hefja vinnu með sveitarfélaginu að mótvægisaðgerðum til að taka út þetta högg. Innan Síldarvinnslunnar er mikil þekking á sjávarútvegi sem er kraftur sem getur skipt máli í þessa vinnu. Þegar vinnslan á Seyðisfiðri var keypt fyrir níu árum þá var vinnslan efld og landað meira sem gaf ástæðu til bjartsýni.“

Hann lýsti ákvörðuninni sem vonbrigði þótt hún kæmi ekki fyllilega á óvart miðað við þróunina í sjávarútvegi. Vonbrigðin væru hins vegar meiri þar sem síðasta rekstrarár hefði verið eitt hið besta í sögu Síldarvinnslunnar. Vilhjálmur setti ákvörðunina í samhengi við aðra erfiðleika sem Seyðisfjörður hefur glímt við síðustu ár.

„Þegar Rarik ætlaði að loka hitaveitunni þá var það því tækjabúnaðurinn hafði drabbast niður því menn sáu ekki fram á að halda orkugjafanum. Í sjávarútveginum minnka veiðiheimildirnar þannig ná þarf hagkvæmni í vinnslunni en þess vegna er farið hægt í að byggja upp og halda við. En í ljósi mikillar fjárfestingar annars staðar á landinu er spurningin líka hvort ekki hefði komið til greina að byggja upp á Seyðisfirði?“

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar