Gaman að fá Norrænu aftur

Ríflega 20 farþegar voru með Norrænu þegar skipið kom til Seyðisfjarðar í morgun. Afgreiðsla skipsins gekk vel en allir farþegarnir fara í sóttkví út af covid-19 faraldrinum. Mánuður er síðan skipið kom síðast til Seyðisfjarðar.

„Þetta gekk mjög vel. Það er gaman að fá hana aftur. Starfsmenn tollsins og lögreglunnar sinntu sínum störfum með mikilli prýði. Við hafnarstarfsmennirnir vorum eiginlega bara hliðverðir í dag,“ segir Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði.

Norræna kom síðast til Seyðisfjarðar þann 19. mars og kom þá aðeins með fragt en enga farþega. Hlé var síðan gert á ferðum skipsins vegna landamæralokana danskra yfirvalda. Önnur skip Smyril-Line, sem sigla í aðrar hafnir, hafa síðan annað fragtsiglingunum.

Um 75 tonn af fragt voru um borð í skipinu í morgun. „Þetta var ekki stór ferð, en okkur munar um hana,“ segir Rúnar.

Mest athygli hefur hins vegar beinst að farþegum ferjunnar í ljósi samkomubanns hérlendis. Vel var hugað að sóttvörnum þegar Norræna lagðist að bryggju rétt fyrir klukkan níu í morgun.

„Það voru 23 farþegar um borð, 21 á eigin bílum. Hinna tveggja beið bílaleigubíll þegar þeir komu. Þetta eru ekki ferðamenn heldur annað hvort fólk sem býr hér eða kemur til að vinna. Fólkið fer í sóttkví en þó eru einhverjir með undanþágu til að fara á sinn vinnustað.

Farþegarnir voru rólegir. Þegar þeir komu í land fengu þeir upplýsingar frá lögreglu um hvað þeir mættu gera og hvað ekki. Það fór enginn í gegnum ferjuhúsið, allt var afgreitt úti í góða veðrinu.

Það voru send skilaboð í skipið í gær þar sem farþegunum var ráðlagt að kaupa mat og drykki þar til að birgja sig upp því þeir mega ekki fara í verslanir hér,“ segir Rúnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar