Gamla ríkið afhent Seyðisfjarðarkaupstað

Íslenska ríkið afsalaði sér í gær Hafnargötu 11, betur þekktu sem Gamla ríkið, til Seyðisfjarðarkaupstaðar. Stefnt er á að nýta veturinn til að endurbyggja húsið.

Það voru Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri, sem skrifuðu undir samkomulag um þetta í húsinu í gær.

Húsið var byggt árið 1918 undir verslunarrekstur en komst í eigu ríkisins 1959 þegar Áfengis- og tóbakverslun ríkisins flutti þangað inn. Hún var síðan flutt í annað húsnæði árið 2004. Síðan hefur engin föst starfsemi verið í húsinu en það verið nýtt undir stöku listviðburði. Í nýútkominni Húsasögu Seyðisfjarðar segir að síðan hafi húsið verið í reiðuleysi.

Ytra byrði hússins var friðað árið 2009, ásamt innréttingunum. Þær komu úr Verslun Konráðs Hjálmarssonar á Mjóafiðri sem byggð var skömmu fyrir aldamótin 1900 og voru notaðar meðan ÁTVR rak verslun sína í húsinu. Þær eru taldar einar elstu verslunarinnréttingar landsins.

Fúaspýtufélagið varði innréttingarnar

Aðdragandi friðunarinnar var ekki átakalaus. Bæði Bjarni og Aðalheiður rifjuðu upp í gær að árið 2007 hefðu verktakar á vegum ÁTVR komið á staðinn með fyrirmæli um að rífa innréttingarnar niður og koma þeim í geymslu. Félagar úr hinu svokallaða Fúaspýtufélagi, óformlegum félagsskapi fólks sem hefur barist fyrir verndun gamalla húsa á Seyðisfirði, komu í veg fyrir það með fulltingi annarra Seyðfirðinga.

„ÁTVR varði sig og gaf út yfirlýsingu um að tilgangurinn hefði aðeins verið sá að bjarga innréttingunum hér sem gætu ekki staðið deginum lengur í húsinu. Þær eru hér enn,“ sagði Bjarni.

Hann rifjaði upp að hafa fyrst komið inn í húsið sem fulltrúi í fjármálanefnd Alþingis um það leyti sem ÁTVR var að hætta þar starfsemi. Þá strax hefðu Seyðfirðingar verið farnir að vekja athygli á sögu hússins og mikilvægi þess að því yrði fundið nýtt hlutverk.

16 ára kafla lokið

Áður en deilurnar spruttu upp um innréttingarnar höfðu kaupstaðurinn og ríkið átt í viðræðum um að kaupstaðurinn tæki við húsinu. Þær hafa staðið yfir í nokkurn tíma en skriður komst á málið í vor þegar ríkið auglýsti eftir átaksverkefnum sem nýst gætu sem viðspyrna við efnahagsvanda í kjölfar Covid-19 faraldursins.

„Það er stundum þannig í stjórnmálunum að góðir hlutir gerast hægt. Eftir að ytra byrðið og innréttingarnar voru friðaðar tók 11 ár að skrifa næsta kafla í sögu þessa húss. Það er merkilegt að öll góðu árin nýttust ekki í þetta verkefni en þegar allar forsendur ríkisfjármála eru í molum vegna tekjuhruns erum við þeirrar trúar að það borgi sig að stíga frekar fram og auka fjárfestingar. Þess vegna tókum við þetta hús með í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar.“

Leit hafin að rekstraraðila

Ríkið leggur að auki 100 milljónir með húsinu til endurbóta á því. Sveitarfélagið mun halda utan um þær en fá til þess sérfræðiaðstoð frá Minjavernd. Aðalheiður vonast eftir að hægt verði að nýta næsta vetur í framkvæmdirnar en það velti á verkefnastöðu verktaka. „Við teljum þetta verk skipta máli fyrir verktaka hér. Þetta er mikill peningur fyrir lítið sveitarfélag.“

Þá hefur verið auglýst eftir aðila til að vera með rekstur í húsinu. Sú kvöð fylgir að aðgangur að innréttingunum sé opinn fyrir bæjarbúa, að minnsta kosti yfir sumarmánuðina. Óákveðið er hvort kaupstaðurinn muni eiga húsið eða leigja það en í samtali við Austurfrétt sagði Aðalheiður að helst væri stefnt að því að selja það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.