Geðheilbrigðismál efst á blaði að loknu haustþingi SSA

Ákall um aukinn stuðning til geðheilbrigðismála er efsta ályktun á blaði að loknu haustþingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, ólíkt fyrri árum þar sem samgöngumál hafa alla jafna verið fremst. Formaður SSA segir ályktunina stuðning við austfirskt samfélag eftir erfið áföll.

„Það hafa dunið á okkur gríðarleg áföll trekk í trekk og við viljum gera það sem við getum til að standa með samfélaginu. Við viljum bregðast við og getum það á þennan hátt,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA.

Haustþing sambandsins var að þessu sinni haldið á Hallormsstað og lauk með umræðu og afgreiðslu ályktana. Í fremstu ályktuninni er kallað eftir því að geðheilbrigðismál á landsbyggðunum verði tekin alvarlegar en nú sé gert og aðgengi fólks sem þurfi geðheilbrigðisþjónustu á Austurvaldi verði stóreflt.

Ályktunin tók breytingum frá þeim drögum sem kynnt voru fyrir fundinn, meðal annars eftir fund stjórnar SSA með fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Austurlands í vikunni. „Þetta var gott samtal um hver þróunin hefur verið. Það hefur margt verið gert á síðustu árum en það þarf áfram að gera betur og HSA hefur greint hvað þurfi til þess. Við getum nefnt fyrsta stigs forvarnir þannig við séum ekki alltaf að slökkva elda. Slíkt kallar þó alltaf á ný stöðugildi og aukið fjármagn. Þar getum við lagst á árarnar með stofnuninni.“

Snýr líka að sveitarfélögum og samfélagi


Berglind Harpa bendir þó á að það sem þurfi að gera snúi ekki bara að heilbrigðisþjónustunni heldur líka sveitarfélögunum, stofnunum þeirra og íbúum. „Við höfum ekki enn greint nákvæmlega hvað þurfi að gera en við vitum að samskipti foreldra og barna skipta máli, sem og samskipti í grunn- og leikskólum. Sveitarfélögin geta meðal annars stuðlað að aukinni fræðslu. Þetta þarf meðal annars að vinna í fjölskyldunefndum sveitarfélaganna og það skiptir máli að byggja á góðum og viðurkenndum upplýsingum.

En þótt við þurfum að tryggja að börnunum okkar líði vel þá snýr þetta að öllum íbúum. Við erum ekki endilega að tala um aðgerðir sem eru dýrar heldur þarf að samstilla vinnuna. Við vitum að við þurfum að gera betur, það er metnaður til þess og vinna framundan við það.

Eðlilegt að Austurland njóti þess sem það skapar


Næstar á eftir í röðinni voru ályktanir um að bílastæðagjöld við Egilsstaðaflugvöll verði afnumin og samgönguáætlun verið samþykkt sem fyrst þannig hægt verði að hefjast handa við næstu jarðgöng á Austurlandi. Vísað er til þess að hringtenging svæðisins sé forsenda framþróunar og vísað í áherslur sem fram koma í Svæðisskipulagi Austurlands.

Samgöngumál hafa alla jafna verið efst á blaði hjá SSA, án þess að það hafi alltaf skilað sýnilegum árangri. Þess vegna vakna upp spurningar hver raunverulegur árangur ályktana þingsins sé. Berglind Harpa svarar því að síðustu misseri hafi framsetning ályktana breyst, SSA hafi fleiri tæki til að byggja skilaboð sín á, svo sem Svæðisskipulag Austurlands. Þess vegna séu einstök samgöngumannvirki ekki lengur tilgreind í texta.

Þá hafi sambandið byggt undir kröfur sínar, meðal annars með efnahagsgreiningu Austurlands sem sýndu að þótt aðeins 3% íbúa búi í fjórðungnum þá standi þeir undir stórum hluta verðmætasköpunar landsins. Þess vegna sé eðlilegt að fjórðungurinn fái stuðning til baka. Að því er vikið í fjórðu ályktun þingsins þar sem segir að gjaldheimta að atvinnustarfsemi verði að skila sér þangað sem hún er stunduð.

„Við teljum að það þurfi að skila fjármagni aftur til Austurlands, bæði í formi samgöngubóta en einnig öðru sem viðkomi samfélaginu. Við höfum sameinast til að vera með færri og skýrari raddir og í gegnum SSA erum við ein skýr rödd. Samt virðumst við ekki fá fjármagnið.

Þess vegna styttist biðlundin alltaf en við gefumst ekki upp og eins og fyrsti þingmaður kjördæmisins sagði í gær þá holar dropinn steininn. Við gefumst ekki upp og við vitum að við þurfum að halda áfram að ýta. Í ljósi þeirra tekna sem Austurland skapar til að standa undir samneyslunni teljum við sjálfsagt að hingað komi uppbygging sem ekki er beintengd íbúafjölda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar