Þingmenn upplýstir um slæma vegi í Fljótsdalnum

Þingmenn Norðausturkjördæmis voru upplýstir um miður gott ástand vegamála í Fljótsdalnum á fundi sem boðað var til á Óbyggðasetrinu fyrr í vikunni. Lýstu þingmenn allir skilningi á að betur þurfi að gera en kjördæmadagar eru í gangi þessi dægrin.

Líkt og víðar á Austurlandi liggja svokallaðir tengivegir nokkuð undir skemmdum enda viðhaldi þeirra almennt ábótavant að margra mati. Þeir vegir eru í umsjón Vegagerðarinnar lögum samkvæmt en fjárskortur gjarnan komið í veg fyrir viðhald og lagfæringar eins og þurfa þykir.

Vegurinn að Óbyggðasetrinu, sem sannarlega er komið á kort ferðafólks í fjórðungnum, er skráður tengivegur en er þó oftar en ekki lítið annað en sæmilegur slóði sem breytist gjarnan í drullusvað þegar rignir eða snjóar að sögn Helga Gíslasonar sveitarstjóra.

„Þetta var ánægjulegur fundur og það farið afar vel ofan í þau vandamál sem slæmur vegur að setrinu getur haft í för með sér nú þegar þar er rekin þjónusta allan ársins hring. Þarna er gisting fyrir 60 manns og á köflum gæti orðið erfitt fyrir slökkvilið að komast þangað þegar vegurinn er í sem verstu ásigkomulagi. Annars höfðu gestirnir góðan skilning á vandamálinu og nú er vonin að það verði til að koma hreyfingu á málið innan kerfisins. Sjálfur er ég vongóður því ekki aðeins var þarna eini ráðherra kjördæmisins heldur og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.“

Fljótsdalshreppur sjálfur tók að sér að fjármagna vegabætur á hluta vegarins fyrir nokkru til að sýna gott fordæmi en þar aðeins um einn kílómetra að ræða af átta kílómetrum alls inn að setrinu sjálfu. Annar tengivegur í Fljótsdalnum sem þarfnast uppbyggingar er vegurinn í Suðurdal en sveitarstjórinn segir best að taka einn hlut í einu.

Þingmenn kjördæmisins ásamt forsprökkum Fljótsdalshrepps að loknum fundi í vikunni. Mynd Austurbrú/Dagmar Ýr Stefánsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.