Geðlæknir segir engan vafa um að Alfreð Erling sé ósakhæfur

Geðlæknir sem vann geðmat á Alfreð Erling Þórðarsyni, sem ákærður er fyrir að myrða Rósu Benediktsdóttir og Björgvin Sveinsson í Neskaupstað í ágúst, segir Alfreð Erling stjórnast af miklu ranghugmyndakerfi og sé því ekki sakhæfur. Hann kunni að vera hættulegur og þurfi að vera á réttargeðdeild í umsjá sérhæfðs starfsfólks. Geðlæknirinn baðst undan að svara hvort rétt hafi verið að sleppa Alfreð Erling úr nauðungarvistun nokkrum vikum fyrir verknaðinn.

Þetta kom fram á öðrum degi aðalmeðferðar yfir málsins. Þar bar Kristinn Tómasson, geðlæknir, vitni en hann gerði geðmat á Alfreð Erling sem hann taldi ósakhæfan. Við þingfestingu málsins vakti athygli að hvorki sækjandi né verjandi fóru fram á yfirmat, eins og algengt er, heldur sögðu mat Kristins óvenju skýrt.

Kristinn sagðist fyrst hafa hitt Alfreð Erling eftir að hann var handtekinn. Eftir skamma stund hafi blasað við honum að Alfreð Erling þyrfti að vera vistaður á réttargeðdeild. Það væri mikilvægt til að tryggja bæði öryggi hans og fangavarða. Hann yrði að vera í umsjá sérhæfð starfsfólks.

Stjórnast af ranghugmyndum


Kristinn sagði Alfreð Erling fastan í ranghugmyndakerfi. Hann hefði lýst ógnvekjandi baráttu við guð og djöfulinn auk orðaleikja. Fleiri vitni, bæði í dag í gær hafa lýst slíkum hugsunum Alfreðs Erlings. Kristinn bætti við að Alfreð hefði líka horft á andlát á Austurlandi sem hluta af einhverri flókinni heildarmynd. Sú sýn sé truflandi.

Fyrir dóminum sagði Kristinn að það hefði aldrei örlað á því í sínum huga að Alfreð Erling væri sakhæfur. Þótt Alfreð geri sér grein fyrir að rangt sé að meiða fólk sé ljóst að hann stjórnist af ranghugmyndum um að guð og djöfullinn stýri afhæfi hans – og hafi gert lengi.

Mat Kristins er að Alfreð Erling sé með skýran geðrofssjúkdóm og veikindi hans séu langvinn, til að minnsta kosti sex ára. Þau hafi verið orðin slík að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gjörðum sínum og verkum. Algjör samfella sé í veikindunum og aldrei brái af honum. Á sama tíma geri Alfreð Erling sér ekki nokkra grein fyrir að um veikindi sé að ræða. Hann þurfi á mjög sérhæfðri hjálp að halda í öruggu umhverfi í tíma sem teljist í árum.

Vonlaust að koma honum í skilning um delluna


Alfreð Erling er ákærður fyrir að hafa banað Rósu og Björgvini með heiftarlegri árás á heimili þeirra. Kristinn sagði Alfreð Erling hafa verið tilbúinn að ræða ýmislegt, þó lítið atburðina í Neskaupstað að kvöldi 21. ágúst. Hann hefði getað lýst ýmsu bæði fyrir og eftir en ekki árásinni sjálfri. Alfreð Erling neitaði að hafa myrt þau, heldur komið að þeim. Þær lýsingar sem hann hafi þó gefið komi engan vegin saman við önnur gögn málsins.

Alfreð Erling var handtekinn í Reykjavík daginn eftir. Þangað hafði hann keyrt í bíl hjónanna. Kristinn sagði hann hafa verið tiltölulega vel áttaðan á hvaðan hann kæmi og hvert hann væri að fara. Hann ætlaði að kveikja í krossi fyrir fram Hallgrímskirkju að beiðni guðs og djöfulsins. Kristinn sagði það ekki hafa verið „fræðilegan möguleika að koma að þeim sannleika að þetta væri algjör della,“ jafnvel ekki að þetta væri „í besta falli sérkennilegt eða ekki eðlilegt.“ Erfitt væri að átta sig á hugmyndaheimi ákærða.

Enn með miklar ranghugmyndir


Kristinn sagði að Alfreð Erling væri fær um að skipuleggja gjörðir sínar, eins og bílferðin væri til marks um. Almennt væri hann ekki með neitt stórt plan í huga, ólíkt mörgu öðru fólki sem hafi ranghugmyndir.

Kristinn bar Alfreð Erling söguna vel að því leyti að hann væri greindur og oft gaman að spjalla við hann, þótt tíma hefði tekið að fá hann til að tala. Hann væri almennt rólegur í umgengni.

Kristinn sagði að Alfreð Erling væri enn að slást við miklar ranghugmyndir. Hann sé enn sannfærður um að hann verði látinn hverfa sporlaust og það muni vekja heimsathygli. Hann trúi þessu innilega og ræði þetta við verjanda sinn.

Vildi ekki svara hvort rétt hefði verið að ljúka nauðungarvistun


Alfreð var á innan við ári þrisvar sinnum úrskurðaður í nauðungarvistun, tvisvar í september 2023 og aftur í júní 2024. Síðasti úrskurðurinn var til 12 vikna og því var samkvæmt honum heimilt að halda honum á geðdeild í lyfjagjöf þegar morðin voru framin. Hann var hins vegar látinn laus í lok júlí. Atburðirnir sem urðu til þess að hann var færður til vistunar í maí í fyrra komu lauslega til tals í dag. Lögregla yfirbugaði hann við söluskála N1 á Egilsstöðum þar sem hann var með hníf á lofti. Hann taldi sig vera að setja á svið sjónarspil fyrir framandi verur. Kristinn lýsti þeirri skoðun sinni að ástand Alfreðs hefði verið alvarlegt síðan haustið 2023.

Kristinn færðist undan þegar hann var spurður, bæði af dómurum og verjanda, hvort rétt hefði verið nýta vistunarheimildina frekar. Í bæði skiptin sem Alfreð var sleppt úr nauðungarvistun neitaði hann hvers konar eftirfylgni, hvað þá lyfjagjöf. Kristinn sagðist ekki vilja svara því hvort rétt hefði verið að sleppa Alfreð því hann hefði ekki verið spurður að því fyrr. Eftir á væri svarið já en ítarleg skoðun á eldri gögnum um Alfreð gæfu ekki skýrt svar.

Vantaði eftirmeðferð


Hann sagði spurningu um hvort hægt hefði verið að sjá verknaðinn fyrir vonda og óþægilega. Vissulega hefði verið betra að meðhöndla Alfreð Erling fyrr en nákvæmlega svona óhæfuverk hefði ekki verið fyrirsjáanleg. Þó hafi verið merki á lofti um að eitthvað hræðilegt gæti gerst. Kristinn virtist gagnrýna að Alfreð Erling hefði ekki fengið neina eftirfylgni eftir hefðbundna geðrofsmeðferð né verið í stöðugri lyfjameðferð til lengri tíma.

Alfreð Erling var upphaflega greindur með geðrofssjúkdóm árið 2016 sem tengdist kannabisreykingum. Kristinn sagði neysluna hafa ýtt undir að geðsjúkdómurinn kom fram, en hann hefði trúlega gert það hvort sem er. Sérstakt væri hversu gamall hann hefði verið orðinn þegar hann veiktist.

Annar geðlæknir sem talaði við Alfreð fyrst eftir handtökuna sagði hann hafa verið í geðrofi og varla heil brú í því sem hann sagði. Alfreð hefði talað um guð, djöfla og vísindamenn en varla getað klárað heilar setningar. Hann hefði ekki svarað spurningum en glott og brosað á óviðeigandi stöðum.

Fréttin er unnin í samstarfi Morgunblaðsins og Austurfréttar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar