„Fór bara allt til fjandans“ á Vattarnesi

Þak fjárhússins að Vattarnesi fauk að mestu leyti af húsinu í óveðrinu í nótt og bílar á staðnum fuku til. Enn er svo hvasst þar að engri hjálp er viðkomið að svo stöddu.

Það staðfestir Óðinn Logi Þórisson, bóndi á staðnum í samtali við Austurfrétt, en hann horfði upp á stærstan hluta þaks fjárhússins fjúka burt í nótt. Í verstu hviðunum sem gengu þá yfir þar fór vindstyrkurinn í 54 metra á sekúndu.

Óðinn hefur enn ekki komist út í fjárhús til að kanna stöðuna á fénu enda hefur lítið dregið úr vindi og hreint ekki stætt eða öruggt að vera utandyra.

„Hér fór bara allt til fjandans. Það er ekkert langt síðan það fór fjárhúsþakið og allir kindurnar inni og ég veit ekkert hvort eitthvað sé lifandi af því eða ekki. Þakið liggur hér í pörtum út um allt en það er ekkert hægt að gera hérna enda beinlínis hættulegt að vera á ferðinni. Þó mig dauðlangi að fara út í fjárhúsið þá er einfaldlega ekki hægt að fara neitt hér ennþá.“

Óðinn varð líka vitni að því í mikilli hviðu í nótt að bílar á stæðinu fuku til eins og eldspýtur en ekki er ljóst hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á þeim. Hann bíður átekta eftir að vind lægi svo hann komist út úr húsi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.