Gefur út tónlist innblásna af verkum Stórvals

Útgáfutónleikar nýrrar hljómplötu sem byggir á málverkum Stefáns Jónssonar frá Möðrudal, eða Stórvals, er meðal þess sem Austfirðingar geta notið um helgina. Af öðrum má nefna leikhús, listsýningar og nágrannaslag í bikarkeppninni í knattspyrnu.

Það er Charles Ross, sem kennt hefur Austfirðingum að leika á hljóðfæri í áratugi, sem samið hefur tónlistina sem byggir á verkum Stórvals.

Útgáfutónleikarnir verða í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði klukkan 20:00 á sunnudagskvöld. Það er nútímasveitin Stelkur sem flytur tónlistina en undir henni verður myndefni Stórvals varpað á veggina. Sveitina skipa þau Berglind Halldórsdóttir, Charles Ross, Eyrún Eggertsdóttir, Gillian Haworth, Hildur Þórðardóttir, Sunčana Slamnig og Øystein Magnús Gjerde

Suncana verður víðar á ferðinni um helgina því hún stýrir þjóðlagakórnum Vesele Babe sem heldur tónleika á Bókakaffi í kvöld klukkan 20:00.

Komedíuleikhúsið sýnir einleik Elfars Loga Hannessonar um Gísla á Uppsölum í Egilsbúð í Neskaupstað í kvöld og Valhöll Eskifirði á morgun. Báðar sýningarnar hefjast klukkan 20:00. Sýningin hefur farið víða um landið og fengið mikið lof.

Í Skaftfelli á Seyðisfirði á morgun laugardag milli 16 og 19 verða georgíska listakonan Eliso Tsintsabadze og rússneski listamaðurinn Pavel Filkov, gestalistamenn Skaftfells í mars og apríl, með opna vinnustöðu. Þau nýta ljósmyndatækni til að kanna umhverfi sitt.

Þar klukkan fjögur kynnir FOSS kynna fjögur nýleg fjölfeldi eftir Arild Tveito og Gavin Morrison, PÉTURK, Stéphane le Mercier og Litten Nystrøm undir yfirskriftinni „Á staðnum“ í sýningarsal Skaftfells.

Samtökin Ungt Austurland standa fyrir framsögunámskeiði í tengslum við aðalfund sinn á Breiðdalsvík á morgun. Kennari á námskeiðinu verður Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ. Fundurinn hefst klukkan 13:00.

Fljótsdalshérað mætir Dalvíkurbyggð í átta liðum úrslitakeppninnar Útsvars í kvöld. Útsending Sjónvarpsins byrjar klukkan 20:10.

Austfjarðaliðin spila í fyrstu umferð bikarkeppni karla í knattspyrnu um helgina. Stórleikur verður á Fellavelli klukkan 19:00 í kvöld þar sem Höttur tekur á móti Fjarðabyggð. Einherji heimsækir svo Sindra á Höfn á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.