„Getum ekki verið búðarlaus lengi“

Oddviti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps segir það bagalegt að enginn hafi fundist til að halda áfram verslunarrekstri á staðnum frá og með næstu mánaðarmótum. Sveitarfélagið skoði nú hvernig hægt sé að halda þar verslunarrekstri áfram.

„Þetta er ekki gott fyrir samfélagið. Óvissan er hvað verst. Fólk gæti sætt sig við að vera án búðar í 2-3 vikur en við vitum ekkert hvað verður,“ segir Sigríður Bragadóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps.

Árni Róbertsson og fjölskylda hans hafa rekið einu dagvöruverslun staðarins, Kauptún, frá 1. október árið 1988. Í lok mars tilkynnti Árni að hann hygðist hætta rekstrinum af persónulegum ástæðum þann 1. júlí. „Við álösum engum. Ef fólk vill hætta rekstri þá gerir það það,“ segir Sigríður.

Starfsfólki verslunarinnar var sagt upp og reksturinn auglýstur til sölu. Þreifingar voru við Samkaup en ekki náðist samkomulag og því stefnir allt í að engin dagvöruverslun verði á Vopnafirði frá og með næsta miðvikudegi. „Við fengum að fylgjast með ferlinu og vorum bjartsýn því samningar virtust vera að ganga í gegn, en svo gekk það ekki eftir,“ segir Sigríður.

Næstu dagvöruverslanir eru á Þórshöfn í um klukkustundar fjarlægð og á Egilsstöðum en þangað tekur einn og hálfan tíma að keyra frá Vopnafirði.

„Það er virkilega slæmt fyrir samfélagið að þurfa svona langt í búð. Maður skreppur þetta ekkert. Hingað kemur ferðafólk, það er mikið að gera fyrir skipin. Það eru heldur ekki allir sem geta farið svona langt,“ segir Sigríður.

Hún segir sveitarstjórn núna vera að skoða hvað hreppurinn geti gert til að liðka fyrir áframhaldandi verslunarrekstri, annað en að sjá alfarið um hann.

„Við reynum hvað við getum að fá einhvern til að reka verslun. Ég held hins vegar að það sé ekki gott að sveitarfélagið geri það sjálft. Í fyrsta lagi held ég það sé á gráu svæði út frá samkeppnissjónarmiðum. Í öðru lagi þýðir það lántöku ef hreppurinn þarf að kaupa eitthvað og það hugnast okkur ekki.

Ég veit ekki hvað hægt er að gera, við erum að skoða það betur. Kannski getum við horft til lausnar eins og á Borgarfirði,“ segir hún og vísar til Búðarinnar á Borgarfirði eystra. „Það er ekkert fast í hendi en við getum ekki verið búðarlaus lengi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar