Geymir enn von í brjósti að finna megi Lúnu og Stitch á lífi

Þann ellefta desember síðastliðinn hurfu setter-hundarnir Luna og Stitch frá umsjónarfólki sínu á Djúpavogi en þann dag sást til þeirra á hlaupum inn í Geithellnadal. Síðan hefur ekkert til þeirra spurst.

Fjölmargir aðilar; vinir, ættingjar og fjöldi alls ókunnugs fólks hafa frá þeim tíma lagt lykkju á leið sína til að svipast um eftir hundunum tveimur sem voru þegar þeir hurfu tiltölulega nýkomnir til landsins. Þrátt fyrir það hafa alls engar ábendingar borist um ferðir þeirra síðan og ljóst að nú, tæpum þremur mánuðum síðar, fara líkurnar dvínandi að þeir finnist nokkurn tímann.

Ólöf Rún Stefánsdóttir, sem hafði umsjón með hundunum þegar þeir hurfu á brott, segist enn bera von í brjósti um að þeir finnist enda sé það gjarnan raunin þegar ættingjar, vinir eða dýrmæt gæludýr hverfa að von er haldið úti þó ekki finnist tangur né tetur við leit.

„Það er vissulega merkilegt að enginn hafi orðið þeirra var þessa mánuði sem liðnir eru síðan þeir hurfu. Það eru auðvitað til sögur af hundum af þessari tegund sem hverfa í töluverðan tíma en skila sér þó aftur og í raun er ekki alveg útilokað að þeir hafi getað plumað sig hingað til ef þeir hafa komist í skjól og fundið mat svo vonin er enn í brjósti. En auðvitað dvínar hún því lengra sem frá líður.“

Ólöf segist hafa velt fyrir sér hvort þeir hafi beinlínis verið teknir enda um verðmæta hunda að ræða og til eru dæmi um að hundar hafi verið teknir ófrjálsri hendi austanlands og jafnvel teknir með um borð í Norrænu.

„Ég held að það sé ekki hægt að útiloka slíkt alveg eða hvort einhver hefur tekið þá með sér til einhvers annars staðar á landinu. En ég er ekki alveg reiðubúin að afskrifa þá ennþá, allavega ekki fyrr en eitthvað er vitað um örlög þeirra hvort sem það er dauði upp á fjöllum eða eitthvað annað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar