Eigendur Manchester United hittust á Vopnafirði

Hluti Glazer-systkinanna, sem eru aðaleigendur enska knattspyrnufélagsins Manchester United, heimsóttu Vopnafjörð í sumar. Meðeigandi þeirra Jim Ratcliffe fer með stjórn félagsins í dag.

Ratcliffe, sem stendur að baki Six Rivers sem undanfarinn áratug hefur keypt upp land við laxveiðiár í Vopnafirði og víðar á Norðausturlandi, keypti á aðfangadag árið 2023 25% hlut í félaginu. Þar með varð hann stærsti einstaki eigandi félagsins.

Hlutina keypti hann af Glazer-fjölskyldunni. Ættfaðirinn, Malcolm Glazer, eignaðist félagið að fullu árið 2015. Börn hans tóku við eigninni eftir að hann lést árið 2014. Þau eru sex talsins en synirnir Joel, Avram og Bryan hafa alla tíð farið fyrir eign fjölskyldunnar í United.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar komu bræðurnir þrír austur ásamt systur sinni Darcie í boði Ratcliffe og reyndu fyrir sér í veiði á milli þess sem þau nutu náttúru Vopnafjarðar.

Eftir því sem næst verður komist var heimsókn þeirra um miðjan júlí. Austurfrétt greindi frá því að þá hefðu sex einkaþotur verið á Egilsstaðaflugvelli, þar af ein skráð á félag í Flórída í Bandaríkjunum þar sem Glazer-fjölskyldan hefur aðsetur sitt.

Jim Ratcliffe var sjálfur á svæðinu sömu helgi en hann sendi enska landsliðinu kveðju úr veiðihúsinu við Selá. Dvöl Glazer-systkinanna á svæðinu var aðeins í nokkra daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.