Góð makrílveiði innan íslensku lögsögunnar
Makrílveiðar hafa gengið það vel síðustu daga að vinnsla Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur vart undan. Veitt er í íslensku lögsögunni sem skiptir máli fyrir bæði gæði fisksins, kostnað við veiðarnar og samningsstöðu Íslands um fiskinn.Samkvæmt tölum Fiskistofu síðan á sunnudag var búið að veiða 15.500 tonn á vertíðinni af 127 þúsund tonna kvóta. Þar af voru 6.600 tonn komin á land í Neskaupstað.
Barði kom inn til Norðfjarðar í morgun með um 1.300 tonn. Nýbúið er að landa aðeins stærri úr Berki sem fór aftur út til veiða í nótt. Skip Síldarvinnslunnar eru í veiðisamstarfi með skipum Samherja. Þau eru fimm saman og skiptast á að sigla með fullfermi til löndunar og vinnslu í Neskaupstað.
Veiðin hefur verið það góð síðustu daga að vinnslan þar hefur ekki alltaf haft undan. Þannig fór Margrét EA með farm til Færeyja nú í vikunni.
„Það verður að veiða meðan það er veiði. Veiðin hefur gengið fínt undanfarna sólarhringa og vinnslan verið á fullu. Fiskurinn hefur verið stór og góður. Síðan dettur veiðin niður á milli, það var til dæmis lítið að sjá í nótt,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni.
Veiðin það sem af er vertíðinni hefur nær öll verið innan íslensku lögsögunnar. Skipin hafa haldið sig í hnapp nærri miðlínunni milli Íslands og Færeyja. Makríllinn er deilistofn sem þjóðirnar við Norður-Atlantshafi hafa ekki samið um hvernig skuli skipt. „Þess vegna er mikilvægt fyrir okkar samningsstöðu að við veiðum hann innan okkar lögsögu,“ útskýrir Grétar.
Makríll byrjaði að ganga inn í íslenska lögsögu af alvöru árið 2008. Síðan hefur verið mismikið af honum enda er hann flökkufiskur sem syndir hratt á eftir æti sínu. Önnur ár hafa skipin elt hann austur á alþjóðlega hafsvæðið Smuguna. „Þegar styttra er að fara á miðin verður hráefnið sem kemur í land ferskara og betra,“ segir Grétar.