Grisja þarf skóga fyrr og hafa þá blandaða
„Þarna er engum um að kenna enda höfum við sofið aðeins á verðinum gagnvart þessu hingað til en ég tel víst að ástæða þess hve illa fór á Djúpavogi sé að þar hafi ekki verið grisjað nógu snemma,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.
Skógar fóru víða mjög illa á stöku stöðum á Austurlandi í óveðrinu um helgina. Tré annaðhvort rifnuðu upp með rótum eða brotnuðu á stórum svæðum á Reyðar- og Fáskrúðsfirði og ekki síst á Djúpavogi þar sem Hálsaskógur varð mjög illa úti. Kunnugir telja allt að helming trjáa í Hálsaskógi ónýtan og hreinsunarstarf þar taki marga mánuði.
Aðrir skógræktarstaðir á Austurlandi sluppu vel eftir því sem Austurfrétt kemst næst og til dæmis voru engar skemmdir á skóginum á Hallormsstað að sögn Þórs Þorfinnssonar skógarvarðar. Sá skógur er reyndar sæmilega í vari fyrir vindstrengjum úr norðaustri sem náðu hvað mestum vindstyrk um liðna helgi.
Fleira kemur til en óveður
Aðspurður um hvort fleira komi til eða aðrar ástæður séu fyrir að skógar og tré falla fyrirvaralítið þegar vindstyrkur nær hæðum nefnir Þröstur tvennt til.
„Fyrst og fremst verður að hafa í huga að þessi veðurofsi um helgina var afar sérstakur. Ég veit ekki nákvæmlega hversu algengir svo sterkir vindar eru á Austurlandi en mögulega einu sinni á 50 ára fresti eða svo. Við höfum verið að sjá töluvert af stormfalli alls staðar á landinu undanfarin ár og mun meira en áður var raunin. Þetta er ekkert einsdæmi sem hér gerðist.
Ástæðurnar eru annars vegar sú staðreynd að skógar víða á Íslandi og ekki síst hér Austanlands eru orðnir það gamlir að tré hafa mörg náð alvöru hæð og af því leiðir að þeir eru farnir að taka á sig meiri vind en ella. Skógar margir hér eru orðnir fullorðnir ef svo má að orði komast og nú glímum við hér við það sama og þjóðir sem eiga gamla skóga annars staðar og þar eru svona vandamál nokkuð algeng.“
Hin ástæðan held ég að megi rekja til loftslagsbreytinga eða hlýnunar jarðar enda hefur verið löngum varað við því að slíkt ofsaveður verði algengara með loftslagshlýnun. Þessu var spáð fyrir 20 til 30 árum síðan af hálfu vísindamanna að samhliða því að hitastig hækkaði, sem hefur staðist, þá yrði aukin tíðni sterkra vinda og það sömuleiðis gengið eftir. Auðvitað er ekki hægt að benda á einhvað eitt tiltekið atvik sem merki um loftslagsbreytingar en þegar tíðni storma og hvassviðris eykst jafnt og þétt eru líkurnar miklar á það sé stór ástæða. Þegar atburður verður sem gerðist einu sinni á hundrað ára fresti gerist nú á 50 ára fresti að jafnaði þá er loftslagsbreytingum um að kenna.“
Lausnir líka til staðar
Þröstur bendir þó á að tvennt sé hægt að gera til að vernda skógana betur og hugsanlega koma í veg fyrir að þeir fari eins illa og raunin varð á Djúpavogi.
„Það allra mikilvægasta er að leyfa skógum ekki að vaxa um of upp á við ef þeir eru þétt saman. Með öðrum orðum að bíða ekki of lengi með að grisja þá. Ef tré vaxa þétt saman þá verða þau mjög há og rengluleg. Ef grisjað er á góðum tíma fá tré nægt pláss til að sveiflast þegar sterkar vindar blása. Ef lítið er plássið þá jagast þau fram og aftur í stað þess að sveiflast og þannig brotna þau eða rifna upp. Mjórri tré og hærri jagast meira en hin sem sverari eru. Það er því langbest að grisja snemma og leyfa trjánum að verða sverari fyrir vikið. Ef skógur er þéttur er ráð að byrja að grisja eftir 15 til 20 ár eða svo því eftir 20 ár eru trén orðin fullorðinn og vaxa hraðar en annars.“
Þröstur segir aðra leið þá að rækta blandaða skóga saman í stað þess að planta sömu tegundinni á stórt svæði.
„Blandaður skógur hjálpar til í þessu tilliti líka. Trjátegundir þola vindinn misvel og þetta veður um helgina kom á sérstaklega vondum tíma sökum þess að öll tré eru enn laufguð sem gerir illt verra. Aspirnar komu vel út úr þessu núna því þær eru með stór og mikil rótarkerfi. Reyniviður varð á móti nokkuð illa úti sem helgast bæði af því að hann er laufgaður og með þéttari krónur sem hefur mikil áhrif þó tréin sjálf séu yfirleitt ekki há í loftinu. Þess vegna rifna þau frekar upp með rótum. Birkið auðvitað er lágvaxið og þétt og fer sjaldnast á hliðina en grenið var kannski stærsta vandamálið á Djúpavogi. Þar fékk það að vaxa hátt í þéttum skógi og því fór sem fór þar.“
Þá bendir Þröstur líka á að ýmsir planti trjám á stöðum sem ekki eru mjög hentugir til eins og á svæðum þar sem stutt er niður á klappir en bent hefur verið á það sem hugsanlega ástæðu þess hve mörg tré á Fáskrúðsfirði fóru á hliðina.
„Fólk ætti að forðast að planta á slíkum svæðum þar sem stutt er niður á klappir eða steina sem vitað er um. Það gömul saga og ný að rætur trjáa ná lítilli festu á slíkum stöðum. Ekki eru mörg ár síðan leifar af fellibylnum Ike reif upp allmörg tré í Ásbyrgi og við athugun kom í ljós að þeim hafði öllum verið plantað beint ofan á grjót. Það er lítið hald í svoleiðis ef vindar blása hart.“
Ofsaveðrið um helgina eyðilagði mikið af því þrotlausa starfi sem sjálfboðaliðar skógræktarfélags Djúpavogs hafa unnið um 70 ára skeið í Hálsaskógi. Mynd Kristján Ingimarsson.