Ágúst Ármann látinn
Ágúst Ármann Þorláksson, tónlistarmaður og fyrrverandi skólastjóri Tónskóla Neskaupstaðar, varð bráðkvaddur að heimili sínu í Neskaupstað mánudaginn 19. september, 61 árs að aldri. Hann hefur í áratugi verið einn af lykilmönnunum í austfirsku tónlistarlífi í áratugi.
Ágúst fæddist á Skorrastað í Norðfirði 23. febrúar 1950, Hann var sonur hjónanna Þorláks Friðrikssonar og Jóhönnu Ármann. Ágúst ólst upp á Eskifirði til sjö ára aldurs en flutti þá á Skorrastað ásamt foreldrum sínum. Haustið 1968 settist hann síðan að í Neskaupstað.
Að loknu tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík kenndi Ágúst Ármann í einn vetur á Akranesi en kom austur í Neskaupstað árið 1974. Þar kenndi hann til 1982, að undanskildu skólaárinu 1977-78 þegar hann var kennari í Njarðvík og organisti Njarðvíkurkirkju.
Frá 1982-2010 var Ágúst skólastjóri Tónskóla Neskaupstaðar og lengst af organisti Norðfjarðarkirkju og Mjóafjarðarkirkju. Í fyrra tók hann við starfi forstöðumanns Kirkju- og menningarmiðstöðvar Fjarðabyggðar en snéri sér aftur að kennslu í haust.
Ágúst Ármann hefur áratugum saman verið einn af lykilmönnum austfirsks tónlistarlífi. Hann var virkur kórstjórnandi, lék í danshljómsveitum og var meðal stofnenda Blús- rokk- og djassklúbbsins á Nesi (BRJÁN). Hann hlaut menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi árið 2007.
Ágúst Ármann var einnig virkur í félagsstörfum, starfaði lengi innan Þróttar og var formaður félagsins um hríð. Hann var einnig einn af hornsteinunum í vinabæjarsamstarfi Sandavágs í Færeyjum og Norðfjarðar.
Eftirlifandi eiginkona Ágústs er Sigrún Halldórsdóttir. Synir þeirra eru Halldór Friðrik, Bjarni Freyr og Þorlákur Ægir. Barnabörnin eru þrjú.