Guðni Th. vinsælastur meðal Austfirðinga

Yfir 80% kjósenda á Austurlandi velja Guðna Th. Jóhannesson sem næsta forseta. Austfirðingar virðast einnig óánægðari en flestir aðrir með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar með að bjóða sig ekki fram aftur.


Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Maskína gerði í vikunni en niðurstöður hennar voru birtar í gær.

Þar kemur fram að Guðni Th. njóti stuðnings 83,4% kjósenda á Austurlandi sem er hans langmesta fylgi þar sem á landsvísu mælist hann með 67,2%. Davíð Oddsson fær 13,9% sem er svipað og hann fær á landsvísu og aðrir frambjóðendur eru með 2,7%.

Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir mælast ekki á svæðinu en reynast hins vegar vinsæl þegar spurt er hvern kjósendur vildu helst velja á eftir sem þeir völdu í fyrri spurningu.

Þá fer Andri í 40%, Halla í 28%, Guðni í 17%, Sturla Jónsson í 3,7% og Davíð í 3,1%, sem er hans langversta útkoma í spurningunni.

Marktækur munur er í greiningu Maskínu á milli búsetusvæði. Úrtakið á Austfjörðum er hins vegar mjög lítið, aðeins 25 svarendur af ríflega 840 á landsvísu.

69,4% Austfirðinga eru ánægðir með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að bjóða sig ekki fram aftur en 21,4% óánægð. Austfirðingar eru því almennt ósáttari en aðrir landsmenn við ákvörðun fráfarandi forseta. Ekki er þó talin marktækur munur á milli búsetusvæða í svörum við spurningunni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar