Guðrún Þorkelsdóttir sett á söluskrá
Stjórnendur útgerðarfélagsins Eskju á Eskifirði hafa ákveðið að skrá uppsjávarveiðiskipið Guðrúnu Þorkelsdóttur á söluskrá. Minnkandi kvóti í makríl og loðnubrestur eru stærstu orsakavaldarnir.Skipið var skráð til sölu í vor en verkefni þess hafa verið fá það sem af er ári. Engin loðna var veidd í ár en það landaði sex kolmunnaförmum í vetur.
Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, segir að minnkandi kvóti, einkum í makríl, hafi orðið til þess að ákveðið var að selja skipið. Eins hafði loðnubresturinn sitt að segja.
Þá hefur Eskja hafið samstarf um veiði á makríl með Brimi en fyrirtækin gera nú samtals út fimm uppsjávarveiðiskip. Með því minnkaði þörfin fyrir Guðrúnu enn frekar.
Ellefu manns voru í áhöfn skipsins. Nokkrir þeirra verða áfram hjá Eskju en aðrir hafa dreifst á skip annarra útgerða.
Skipið var smíðað í Noregi árið 1999 og gert úr fyrstu 15 árin frá Björgvin. Það var síðan selt dótturfélagi Brims á Grænlandi þaðan sem Eskja keypti það árið 2017.
Á síðu skipamiðlunarinnar Atlantic Shipping kemur fram að skipið í góðu ástandi, lest skipsins hafi fengið yfirhalningu árið 2022 og kælibúnaðurinn 2019. Ásett verð er 75 milljónir norskra króna eða 980 milljónir íslenskra. Skipið var fært til Reyðarfjarðar í lok apríl og hefur verið bundið þar síðan.