Gul viðvörun í gildi vegna hvassviðris
Gul viðvörun vegna hvassviðris á Austfjörðum tók gildi á miðnætti. Yfir 50 m/s hviða mældist í Hamarsfirði í morgun. Að auki hefur rignt mikið á svæðinu og meira að segja fallið slydda til fjalla.Viðvörunin gildir til klukkan átta í fyrramálið. Á þessum tíma er búist við norðvestan 15-20 m/s með hviðum upp á allt að 35 m/s. Búist er við að hvassast verði syðst á svæðinu.
Íbúum er ráðlagt að huga að lausamunum auk þess sem aðstæður geta verið varasamar fyrir stór ökutæki eða þau sem eru með aftanívagna. Sambærileg viðvörun er í gildi á Suðausturlandi.
Um klukkan hálf átta í morgun mældist 53,4 metra hviða í Hamarsfirði. Þar er meðalvindur kominn í 28 m/s. Hvasst er í nágrenninu sem og fjallvegum, svo sem Vatnsskarði og Öxi þar sem meðalvindhraði er yfir 20 m/s.
Síðan í gærkvöldi hefur líka rignt hraustlega víða á svæðinu. Frá miðnætti er úrkoma mest á landinu á Borgarfirði, 30 mm. Slydda hefur fallið til fjalla og krapi var til dæmis á veginum yfir Fjarðarheiði í morgun. Samkvæmt kerfum Veðurstofunnar eru hálkublettir þar, á Vatnsskarði, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.
Almennt dregur úr úrkomunni í kringum hádegið þótt hún virðist halda áfram á Vopnafirði og nyrst á Austfjörðum. Seinni partinn bætir aftur í annars staðar.
Á sunnudag er síðan spáð um 20 stiga hita og sól.
Mynd úr safni, tekin af Ómari Bogasyni.