Gullrifið á Papagrunni hið stærsta við Ísland

Um þrettán kílómetra langt kóralrif, sem er úti fyrir sunnanverðum Austfjörðum, er talið hið stærsta við Ísland og meðal þeirra stærri í Norður-Atlantshafi. Það gengur undir nafninu Gullrifið vegna stærðar sinnar, glæsileika og tengsla við togarann Gullver frá Seyðisfirði.

Fjallað er um rifið í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknastofnunar um kóralrif við Ísland. Skýrslan er samantekt á niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru við landið á árunum 2009-2012.

Rifið er úti fyrir Papagrunni, gróflega áætlað 70 km suðaustur af Hvalnes- og Þvottárskriðum. Það er talið vera allt að 13 km á lengd og 1 km á breidd sem gerir það eitt það stærsta í norðanverðu Atlantshafi. „Þetta er frekar stórt samhangandi rif,“ segir Steinunn Hilma Ólafsdóttir, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Meðal þeirra stærstu í köldum sjó

Kóralar eru sjávardýr sem lifa gjarnan í sambýli. Þau hlaða utan um sig kalkkenndu efni, sem kallast kórall, og út frá þessu efni og sambýli dýranna verða til kóralrif. Stærsta rif heims er undan austurströnd Ástralíu, um 2000 km á lengd og yfir 140 km á breidd.

Í grein á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að það sé eitt magnaðasta vistkerfi Jarðar. Þá taki það kóralrif aldir eða árþúsundir að myndast og þau stærstu sem þekkt séu í dag hafi líklega myndast eftir lok síðustu ísaldar.

Steinunn bendir á að ekki sé til ein algild skilgreining á kóralrifjum. Stundum sé miðað við samhangandi rif, eins og í þessu tilfelli, en stundum dreifð rif sem myndi heildstætt svæði. Lengi vel var talið að kóralrif væru aðeins í hlýrri sjó en síðustu áratugi hefur þekking á rifjum í kaldari sjó aukist. Hið stærsta sem vitað er um í köldum sjó er Røst við Noreg, 3 km breitt og 35 km langt. Næst á eftir því er Sula, álíka stórt og Gullrifið, en í raun frekar mörg lítil rif.

Stærð sjálf Gullrifsins hefur ekki verið fyllilega staðfest enn, en rannsóknir á 500 metra sjávardýpi eru flóknar. „Við höldum að það nái lengra til austurs en höfum ekki náð að mynda þar. Við vitum heldur ekki fyllilega hve langt það er. Við vitum heldur ekki hversu hátt það er því við höfum ekki getað lent tækjunum okkar alls staðar þar sem við hefðum viljað.“

Þéttast á 500 metra dýpi

Rifið er myndað af tegund sem kallast postulínskórall á íslensku en fleiri tegundir hafa tekið sér þar bólfestu. „Þetta er langþéttasta kóralrif sem við höfum séð. Þarna eru stórir bólstrar af lifandi kóral,“ segir Steinunn.

Eitt af því sem flækir kortlagninguna á Gullrifinu er að það rís upp af landgrunnskantinum og fylgir honum. Flest önnur kóralrif við Ísland rísa hins vegar upp af sléttum sjávarbotni. Þetta er líka ólíkt norsku kóralrifjunum sem eru nær landi.

Þéttast er það á um 500 metra dýpi en gisnar þar fyrir ofan og neðan. Vitað er að það nær niður á að minnsta kosti 600 dýpi en ekki hefur tekist að kanna dýpra.

Gullrifið og Gullver

Fögrum orðum er farið um það í skýrslunni, því lýst sem „stórkostlegu“ og það nefnd Gullrifið því það sé „gullfallegt.“ En það á sér líka skírskotun til togarans Gullvers á Seyðisfirði, en það var skipstjóri sem benti vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar á að skoða svæðið.

„Við vorum búin að fá veður af því að það væru kóralar úti af Lónsdjúpi og fórum þangað og staðfestum það árið 2009. Okkur langaði að vita meira og fórum að spyrjast fyrir um svæði. Við fengum ábendingu um að fara austar eftir Papagrunninu því þar væri flott svæði og það stóð heima. Það er frábært að fá svona upplýsingar því það eru sjómennirnir sem vita langmest um þessi svæði,“ segir Steinunn.

Alþjóðlegur áhugi

Hún segir áhuga á að skoða Gullrifið nánar en fjármagn og veðurfar ráði því. „Síðan við fórum 2010 er búið að fjölgeislamæla svæðið. Það eru þéttar dýptarmælingar og með þeim getum við betur ákveðið hvar við setjum okkar myndavélar niður.

Okkur langar aftur en það veltur á fjármagni og veðri. Þarna eru mjög sterkir straumar og sjólag þarf að vera þannig að við getum komið myndavélunum okkar niður. Þýskur leiðangur var á svæðinu fyrir nokkrum dögum. Hann lenti í vandræðum vegna veðurs en náði þó að staðfesta að kóralar væru á 400 metra dýpi og eiginlega alveg upp úr. Leiðangurinn komst hins vegar ekki mikið austar en við fórum.“

Athuganir Hafrannsóknastofnunar á sínum tíma beindust aðallega við kóralrif úti fyrir sunnanverðu landinu. „Við höfum ekki farið mikið austar. Þar eru minni líkur á rifjum því til dæmis úti fyrir Austfjörðum sjálfum er sjórinn kaldari,“ útskýrir hún.

Kóralsvæði eru afar mikilvæg fyrir vistkerfi sjávar en líka afar viðkvæm, meðal annars fyrir veiðarfærum. Þess vegna þarf að kortleggja kóralsvæðin og hvar helst sé hætta á að veiðar geti skaðað þau. Svæðið sem Gullrifið er á, á vesturhorni Papagrunns, var friðað með reglugerð árið 2011.

Gullrifið. Stærsta kóralrif við Ísland. Mynd: Hafrannsóknastofnun/ICECTD Ifremer

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.