Gunnar Bragi: Vinna hafin við að nota skattkerfið til að styrkja dreifbýlið

Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar-, sjávarútvegs- og byggðamálaráðherra, hefur hrundið af stað skoðun á því hvernig beita megi skattkerfinu við að styrkja byggðir landsins. Slíkt fyrirkomulag þekkist meðal annars í Noregi og Svíþjóð.


Frá þessu skýrði Gunnar Bragi í ræðu sinnu á atvinnumálaráðstefnu sem sveitarfélagið Fljótsdalshérað efndi til í dag.

Byggðastofnun hefur verið falið að leiða vinnuna. Jákvæðir hvatar í gegnum skattkerfið hafa reynst vel í nágrannalöndunum. „Það er okkur lífsnauðsynlegt að landið sé í blómlegri byggð og það er ekki bara tilfinning heldur þjóðhagslega mikilvæg aðgerð.“

Ráðherrann sagði ýmsar leiðir færar, til dæmis að fella niður hluta námslána þeirra sem settust að á landsbyggðinni að loknu námi. „Við þurfum að skoða hvað hentar. Borgar þetta sig, viljum við gera þetta með þessum hætti?“

Gunnar Bragi sagði vinnuna í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um byggðaáætlun. Þá vinnur Byggðastofnun einnig að mótun byggðaáætlunar til næstu sjö ára.

Gunnar Bragi ræddi sérstaklega um möguleika í matvælaframleiðslu þar sem ríkisstjórnin samþykkti nýverið að veita 80 milljónum króna í fimm ár í verkefni undir merkjum Matvælalandsins Íslands. Hann sagði vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu, meðal annars með fjölgun jarðarbúa, skapa íslenskum landbúnaði sóknarfæri

Hann hrósaði sérstaklega frumkvæði bænda á Vallanesi á Fljótsdalshéraði sem byggt hafa upp lífrænan búskap en einnig opnað bú sitt fyrir ferðamönnum og tekið þátt í því sem kallast getur matarupplifun.

Gunnar Bragi sagði beint millilandaflug til Egilsstaða nauðsynlegt til að dreifa bæði tekjum og álagi af ferðamönnum. Um leið verði að styrkja innanlandsflug með viðhaldi flugvalla um allt land og leita leiða til að tryggja að verðlag á „þessum almenningssamgöngum“ verði viðráðanlegt. Hann sagðist álíta að helst vantaði samkeppni í innanlandsflugið til að gera verðið viðráðanlegra fyrir neytendur.

Gunnar Bragi lýsti þeirri skoðun sinni að byggðamál ættu heima í forsætisráðuneytinu þar sem unnið væri að samhæfingu. Þau kæmu inn á ýmis svið, svo sem heilbrigðismál og samgöngur. Þá yrði að tryggja að samræmi væri í aðgerðum ráðuneytanna þannig að „þegar eitt bætti við tveimur störfum á svæðinu færi það næsta ekki með þrjú í burtu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.