Gunnþór Ingvason: Svona ákvarðanir eru erfiðar fyrir alla
Síldarvinnslan hefur ákveðið að hætta starfsemi í bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði þann 30. nóvember. Forstjóri Síldarvinnslunnar segir aðstæður á mörkuðum þrengja að litlum vinnslum og því þurfi að horfa til framtíðar. Um 30 manns missa vinnuna við breytingarnar. Fyrirtækið hefur heitið að koma til móts við fólkið og samfélagið á Seyðisfirði.„Fyrsta skref okkar er að eiga samskipti við fólkið til að vita hvert hugur þess stefnir. Eftir það metum við hvernig við getum komið til móts við fólkið til að milda áfall þess. Við gerum hvorki lítið úr áfalli starfsfólks né samfélagsins,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.
„Við erum með talsverða starfsemi annars staðar, til að mynda bolfiskvinnslu í Grindavík. Eins gætu verið einhver störf við fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði. Þetta veltur meðal annars á vertíðum. Við munum skoða með starfsfólkinu og verkalýðsfélaginu hvernig við getum mildað höggið,“ segir Gunnþór.
Starfsmannafundi þar sem breytingarnar voru tilkynntar lauk skömmu fyrir klukkan 13. Áður en hann hófst höfðu tíðindin hins vegar spurst út þar sem fréttatilkynning Síldarvinnslunnar fór fyrir mistök of snemma út. „Það voru mistök innanhúss hjá okkur, ég bað starfsfólk afsökunar á því. Svona getur gerst. En það tekur enginn svona tíðindum vel. Þetta eru ákvarðanir sem eru erfiðar fyrir alla,“ segir Gunnþór.
Sjálfur er hann uppalinn á Seyðisfirði, sat þar um tíma í bæjarstjórn og hefur sterk tengsl við staðinn. „Við skulum ekki persónugera þessa ákvörðun. Hún er erfið fyrir alla sem að henni koma. Ég rek fyrirtæki og í umhverfinu er að verða ákveðin þróun og tæknibreytingar sem við þurfum að bregðast við. Við verðum alltaf að horfa til framtíðar. Við erum í þeim sporum, saman hvaðan við komum. Breytingar sem þessar eru þungbærar en við skulum líka trúa að þeim geti fylgt tækifæri.“
Móta aðgerðir með Seyðfirðingum
Í tilkynningunni er talað um að Síldarvinnslan sé tilbúin að vinna að mótvægisaðgerðum til að milda höggið fyrir samfélagið á Seyðisfirði. Gunnþór segir engan ramma kominn utan um þær aðgerðir nema að þær verði unnar með Seyðfirðingum.
„Við ákveðum ekkert nema í samráði við heimafólk en ég býst við að það hafi hugmyndir til að auka breiddina í atvinnulífinu, hvort sem það er í ferðaþjónustu eða fiskeldi, án þess ég ætli sérstaklega að blanda mér í umræðuna um eldið. Við hittum bæjaryfirvöld í dag og með því hefst ákveðið samráð.“
Minni samkeppnishæfni lítilla eininga
Í október 2014 keypti Síldarvinnslan fiskvinnslufyrirtækið Gullberg á Seyðisfirði og togarann Gullver. Í tilkynningunni frá í dag segir að til að tryggja samkeppnishæfni vinnslunnar á Seyðisfirði þurfi að ráðast í framkvæmdir upp á hundruð milljóna króna. Undir þeirri fjárfestingu standi einingin vart. Hins vegar hafi Síldarvinnslan með kaupunum á Vísi í Grindavík í fyrra eignast afar tæknivædda bolfiskvinnslu.
Gunnþór bendir á að síðustu misseri hafi þrengt að á erlendum fiskmörkuðum og það þrýsti á breytingar. „Vinnslan var gömul þegar við keyptum hana og svigrúmið hefur verið lítið til að fjárfesta í henni. Á sama tíma hefur kvótinn minnkað. Með kaupunum á Vísi fjárfestum við í hátæknivinnslu fyrir bolfisk sem er vannýtt í dag. Þegar ljóst var að ekki væri grundvöllur fyrir fjárfestingunni í þeirri tækni sem þyrfti á Seyðisfirði var engum greiði gerður í að draga ákvörðunina lengur.
Verðlag í kringum okkur hefur hækkað að undanförnu og fyrirtæki finna fyrir verðbólgunni eins og almenningur. Sem stórir matvælaframleiðendur finnum við hvernig kaupgeta fólks úti á okkar helstu mörkuðum hefur minnkað. Við slíkar aðstæður minnkar samkeppnishæfni minni eininga. Sveigjanleiki þeirra til að mæta sérþörfum markaða er minni. Við höfum séð ákveðna þróun í þessa átt.“
Hættan af ofanflóðum ekki ástæðan
Hluti frystihússins hefur einnig verið á hættusvæði C gagnvart ofanflóðum. Þótt mögulegt sé að bæta í varnir þar í kring er ekki ljóst hvenær í það gerist. Í skriðuföllunum á Seyðisfirði í desember 2020 sem og í hættuástandi með rýmingum og eða lokunum svæða bæði fyrir og eftir fór starfsemin í frystihúsinu úr skorðum.
„Skriðurnar sköpuðu óróa meðal starfsfólk. Við skellum ekki skuldinni fyrir þessari ákvörðun nú á ofanflóðamálin þótt það sé ekki boðlegt að starfa undir slíkri hættu. Við verðum áfram með fiskimjölsverksmiðjuna þótt við höfum áhyggjur af hennar stöðu, með tilliti til ofanflóða,“ segir Gunnþór.
Aukin þörf fyrir bræðsluna
Lokun bolfiskvinnslunnar hefur engin áhrif á bræðsluna þar sem eru í dag á milli 15-18 störf. „Við höfum engin áform um annað en að halda henni gangandi þótt starfsemin fari eftir aflaheimildum í uppsjávarfiski sem sveiflast. Við höfum séð aukna þörf fyrir verksmiðjuna á Seyðisfirði því síðustu tvær loðnuvertíðir hafa verið mjög góðar og við erum bjartsýn á þær næstu.“
Ekki kemur heldur til uppsagna í áhöfn Gullvers en fjörtíu ár eru í ár síðan skipið kom til Seyðisfjarðar. „Það er engum sagt upp en skipið er orðið gamalt. Þar gætu orðið breytingar síðar sem skapa tækifæri. Það er ljóst að togarinn verður ekki jafn fastur af því að landa á Seyðisfirði, enda er orðið mun fátíðara en áður að skip landi alltaf í sömu höfn.“