Hægt að fylgjast með loftgæðum á Austurlandi á nýjum vef
Gögn frá fjórum mælistöðvum á Austurlandi verða aðgengileg á nýjum vef sem opnaður var á vegum Umhverfisstofnunar fyrir jól þar sem hægt er að fylgjast með loftgæðum.Þar má finna upplýsingar um magn brennisteinsdíoxíðs frá þremur mælistöðvum í Reyðarfirði: Hjallaleiru, Ljósá og Hólmum. Þá á einnig að vera hægt að nálgast gögn frá mæli í Seyðisfirði en þau eru ekki enn komin inn.
Um er að ræða umfangsmiklar endurbætur á eldri vef en þegar notendur koma inn á síðuna sjá þeir landakort af Íslandi með deplum. Litakóði á deplunum sýnir ástand loftgæða á hverri mælistöð. Með að smella á deplana má síðan nálgast ítarlegri upplýsingar fyrir hverja stöð og sjá töluleg gildi aftur í tímann.
Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að opnun þessa nýja vefs sé fyrsta skrefið í að miðla upplýsingum úr nýju loftgæðaupplýsingakerfi (Airviro) sem starfsfólk stofnunarinnar hefur unnið að uppsetningu á síðasta árið.
Á næstu mánuðum munu bætast við fleiri valmöguleikar á síðuna og ber þá helst að nefna dreifilíkan loftmengunarefna á völdum svæðum á landinu. Dreifilíkanið reiknar út styrk loftmengunar hverju sinni út frá gagnagrunni um losun loftmengunarefna og veðuraðstæðum hverju sinni. Upplýsingar um styrk loftmengunarefna í mælistöðvum segja í raun aðeins til um stöðu loftgæða á þeim punkti þar sem mælistöðin er staðsett en með dreifilíkani verður hægt að sjá hvernig loftmengun dreifist undan vindi. Því verður hægt að sjá mismunandi styrk loftmengunar á öllu því svæði sem dreifilíkanið sýnir.
Gögnum um loftgæði á Íslandi er jafnframt miðlað á evrópska loftgæðavefinn þar sem má sjá stöðu loftgæða á Íslandi í samanburði við önnur lönd í Evrópu.