Hæsti hiti í maí á Skjaldþingsstöðum
Hæsti hiti nýliðins maímánaðar á landinu mældist á Skjaldþingsstöðum síðasta föstudag. Hiti í mánuðinum var yfir meðallagi.Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands fyrir nýliðinn mánuð.
Mesti hiti á landinu í byggð mældist 19,7 gráður á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði á föstudag. Fleiri staði af Austurlandi má finna á topplistanum, þannig náðu hitamælarnir á bæði Egilsstöðum og Seyðisfirði yfir 18 gráður í mánuðinum.
Hiti á veðurstöðunum á Egilsstöðum, Dalatanga og Teigarhorni mældist annars yfir meðaltali miðað við maímánuð. Samanborið við meðaltal síðustu 10 ára var hann 0,2-0,3 gráðum hærri en 0,9-1,2 miðað við árin 1961-1990. Þá er mánuðurinn í hópi þeirra hlýrri í sögu mælinga á þessum stöðum.
En þótt mánuðurinn hafi endað vel var hann fjarri því að vera samfellt hlýindaskeið. Þannig var veðrið frekar napurt sunnudaginn 10. Læsti hiti mánaðarins á landinu mældist þann dag -12,3 á Gagnheiði og hæsti loftþrýstingur 1033,3 Hpa á Egilsstaðaflugvelli.