Framkvæmdastjóður ferðamannastaða: Hæsti styrkur til einkaaðila í Fossahringinn í Fljótsdal

Highland Hostel ehf., sem rekur ferðaþjónustu að Laugarfelli á Fljótsdalsheiði, fékk hæsta styrk einkaaðila þegar úthlutað var úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í dag. Austfirsk verkefni hlutu alls um 77 milljónir króna.


Alls var úthlutað 610 milljónum til verkefna víðs vegar um landið. Styrkflokkarnir eru þrír, til ríkisstofnana, til sveitarfélaga og til einkaaðila.

Hæsta einstaka styrkinn fyrir austan fær Borgarfjarðarhreppur til að byggja þjónustuhús við Hafnarhólma en hönnunarsamkeppni um það var haldin fyrir tveimur árum. Svæðið er viðkvæmt en vinsæll áfangastaður þar sem gott er að skoða lunda.

Seyðisfjarðarkaupstaður fær 15 milljónir til að byggja upp áningarstað við Neðri-Staf á Fjarðarheiði og Fljótsdalshreppur fær alls tæpar 17 milljónir í lagfæringu stígarins upp að Hengifossi og fullnaðarhönnun aðstöðuhúss.

Hæsti styrkurinn í flokki einkaaðila á landsvísu, tæpar 5,9 milljónir, fer til rekstraraðila Laugarfells. Styrkurinn er ætlaður til að þétta stikur og gera göngubrýr á leiðinni meðfram Jökulsá í Fljótsdal, svokallaðri Fossagöngu.

Meðfylgjandi er listi yfir austfirsku verkefnin sem fengu úthlutað ásamt nánari lýsingu og rökstuðningi úthlutunarnefndar.

Borgarfjarðarhreppur - Bátahöfnin við Hafnarhólma - bygging þjónustuhúss.
Kr. 20.000.000,- styrkur til að hefja byggingu húss sem mun rúma aðstöðu fyrir þjónustu fyrir ferðamenn. Salerni og sturtuaðstaða opin almenningi verða í húsinu og á þaki þess verður útsýnispallur en mikið fuglalíf er á svæðinu.
Innviðauppbygging til að bæta aðstöðu til fuglaskoðunar þar sem lögð er áhersla á aðgengi fyrir alla. Mun að einhverju leyti koma í veg fyrir ágang ferðamanna á viðkvæmt svæði í hólmanum og bæta öryggi þeirra sem hafa gengið um bratta hamrana.

Seyðisfjarðarkaupstaður - áningarstaðir við Fjarðarheiðarveg.
Kr. 15.000.000,- styrkur til að byggja upp og efla áningastað við Neðri Staf. Fjöldi ferðamanna stoppar nú þegar við Neðra Staf á hættulegum stað í beygju.
Mikilvægt öryggismál þar sem verkefnið mun bæta úr innviðaskorti og stuðla að verndun náttúru.

Fljótsdalshreppur - Hengifoss - göngustígar og áfangastaðir.
Kr. 12.800.000,- styrkur að byggja upp og endurbæta gönguleiðina upp að Hengifossi.
Verkefni sem mun bæta öryggi ferðamanna og vernda gróður sem víða er farin að láta á sjá vegna átroðnings.

Þjóðminjasafn Íslands - Sómastaðir við Reyðarfjörð - frágangur þjónustuhúsa og bílastæða.
Kr. 7.667.000,- styrkur til frágangs á nánasta umhverfi þjónustuhúsa, stígagerð og frágangs bílastæða.
Gott innviðaverkefni sem hefur einnig þýðingu fyrir náttúrvernd og útlit umhverfis.


Highland Hostel ehf – Fossahringur.
Kr. 5.849.140, - styrkur til gera göngubrýr á votlendiskafla og þétta stikur á allri gönguleiðinni kennda við Fossahring í nágrenni Laugarfells (Fljótsdalshreppi).
Fossahringurinn vex að vinsældum, en mýrlendi og þoka valda göngufólki helst vandræðum og viðkvæmur votlendisgróður er byrjaður að skemmast. Verkefnið er gott náttúruverndar- og öryggisverkefni.

Fuglastígur á Norðausturlandi (FN) - fuglastígur á Norðausturlandi: Norrænt samstarf um hönnun innviða.
Kr. 4.730.000,- styrkur til hanna fuglaskoðunarskýli og skjól á sex stöðum á Fuglastíg Norðausturlands.
Sérstaklega vel undirbúið verkefni sem tengist náttúruvernd og öryggismálum en er einnig mikilvægt fyrir framtíðar innviðauppbygginu á svæði sem setið hefur eftir í ferðamennsku.

Fljótsdalshreppur - Hengifoss - fullnaðarhönnun aðstöðu.
Kr. 4.000.000,- styrkur lýtur að fullnaðarhönnun á aðstöðubyggingu, umhverfi, göngustígum, upplýsingasvæði, hliðum, áningar- og útsýnisstöðum við Hengifossá. Styrkur til fullnaðarhönnunar verðlaunatillögu í nýafstaðinni samkeppni.
Álag á umhverfi og náttúru við Hengifoss eykst með hverju árinu. Verkefnið er mikilvægt skref í að ná sjálfbærum tökum á ferðamennsku á einum helsta ferðamannastað Austurlands.

Fljótsdalshérað - Rjúkandi - Stígar, útsýnispallur og bílastæði.
Kr. 2.736.000,- styrkur til að lagfæra göngustíg, setja upp skilti, gera útsýnispall og áningarstað. Rjúkandi í Jökuldal er nú þegar orðinn vinsæll áningarstaður ferðamanna.
Verkefnið er mikilvægt til að efla öryggi ferðamanna og tryggja náttúruvernd.

Fjarðabyggð - Geithúsagil - lagfæring á göngustíg.
Kr. 2.000.000,- styrkur til að laga göngustíg meðfram gilinu á um 300 m kafla, endurnýja öryggisgirðingu og skilti.
Ástand mála við Geithúsagil er óviðunandi hvað öryggi varðar og bætir verkefnið úr því.
Fossárvík

Alda Jónsdóttir, Fossárdal
kr. 1,75 millj.
Framkvæmdir til lágmarks viðhalds svæðis og afmörkun hættulegra staða.
Verkefnið er mikilvægt vegna náttúruverndar og öryggismála á fjölsóttum ferðamannastað við hringveginn.

Ferðamálahópur Borgarfjarðar eystri - viðhald og úrbætur á gönguleið til Brúnavíkur frá Borgarfirði eystra.
Kr. 800.000,- styrkur til að lagfæra gönguleiðina þar sem hentistígar hafa myndast, koma upp göngubrú í Brúnavík og setja upp upplýsingaskilti við upphaf leiðar sem hvetur m.a. gesti til góðrar umgengni og að halda sig á merktum leiðum.
Ágætt og einfalt innviðaverkefni sem lagfærir náttúruskemmdir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.