Hæstiréttur vísaði í Jónsbók við dóm í máli stórs systkinahóps í landadeilu

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm héraðsdóms Austurlands um að afkomendum Hrafnkels Elíassonar og Láru Stefánsdóttur frá Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð væri heimilt að skipta landi sem þeim var gefið upp í minni einingar.


Árið 1988, um ári áður en hann lést, gaf Hrafnkell 15 börnum sínum landið Tunguás úr Hallgeirsstöðum, 90 hektara óræktaðs lands, til skógræktar og sumarbústaðabyggingar. Hann setti það skilyrði að landið væri sameign, ekkert þeirra gæti sinn hlut og þau ættu forkaupsrétt að mannvirkjum sem reist yrðu á jörðinni.

Ágreiningurinn snérist um heimild til skiptingar Tunguáss í 15 spildur árið 2005. Fengnir voru sérfræðingar til að skipta landinu upp og skiluðu þeir hnitsettum uppdrætti til að ákveða afnotarétt hvers sameiganda að tilteknum hluta landsins.

Tunguási var því skipt upp í 14 hluta til 13 barna. Dómkvaddir matsmenn skiluðu greinargerð árið 2013 þar sem þeir töldu að hægt væri að skipta landspildunum þannig að þær væru sem jafnastar að verðmæti. Áður en matsgerðin lá fyrir afsöluðu tveir bræður eignarhlut sínum til þess þriðja og voru þeir ekki meðal málsaðila.

Í dómnum kemur fram að gerðar hafi verið „ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að ná sátt um skiptinguna.“ Ágreiningurinn snérist einkum að stærð og takmörkunum þess lands sem gefið var.

Vorið 2014 stefnu átta systkinanna fimm bræðrum sínum fyrir dóm til að fá staðfestingu á að landinu yrði skipt upp í samræmi við þá niðurstöðu matsmannanna. Héraðsdómur úrskurðaði systkinunum í vil í maí í fyrra. Tveir bræðranna áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar en hinir þrír tóku ekki til varna þar.

Tekið var undir málsástæður systkinanna átta á báðum dómsstigum. Í dómsorði Hæstaréttar segir að þótt ríkar kröfur séu á gjafþega þá sé ekki kveðið á skýrlega á um bann við skiptingu Tunguáss í séreignir í gjafabréfinu. Það hafi ekki áhrif á sölubann eða forkaupsrétt mannvirkja.

Grundvöllur dómsins var ákvæði úr Jónsbók frá árinu 1281 þar sem segir að hver sameigandi geti krafist slita á séreign ef unnt sé að skipta henni án þess að af hljótist „þarflaust tjón“ og ef það stangast hvorki á við lög eða samning um eignina.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.