Hæstur hitinn á Egilsstöðum í liðnum mánuði

Hæsti hiti sem Veðurstofa Íslands mældi á landinu í júlímánuði reyndist vera á Egilsstöðum þann 14. júlí þegar hitastigið náði 27,5 stigum. Hæsti meðalhiti mánaðarins alls var þó á Akureyri.

Veðurstofan hefur birt tölfræði sína um tíðarfar á landinu í liðnum mánuði þar sem mest er áberandi mikil úrkoma á stóru svæði suðvestan- og vestanlands. Á einum þremur mælisvæðum á Vesturlandi mældist úrkoman sú mesta sem mælst hefur frá upphafi.

Austanlands var meðalhiti yfir meðallagi síðustu þrjátíu ára á allnokkrum stöðum. Á Egilsstöðum var hitinn 0,9 stigum yfir, 0,6 yfir á Dalatanga og 0,2 stigum yfir meðallagi að Teigarhorni.

Á allnokkrum öðrum mælistöðum Veðurstofunnar á Austurlandi fór hitinn í eða yfir 25 stigin í júlí. Þar á meðal á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og á Hallormsstað. Þá náði hitastigið um eða yfir 20 stigum á ýmsum fjallvegum á borð við Oddsskarð, Öxi, Fjarðarheiði og í Fagradal.

Varað var við töluverðum tjörublæðingum á veginum yfir Fagradal fyrr í sumar en þar náði hitinn hæst 22,4 stigum í júlí. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar