Hafa smalað tæplega 100 kindum í Vopnafirði síðan í haust

Smalar í Vopnafirði hafa komið tæplega 100 kindum niður af heiðunum þar í kring síðan í lok október. Smali segir ekki gott að vita af fénu upp á fjöllum í vetrarhörkum.

„Við er komnir með 94 stykki síðan í lok október,“ segir Ragnar Antonsson, sem hefur farið flestar ferðirnar ásamt félaga sínum Emil Ólafssyni.

Síðustu ferðina fóru þeir 5. janúar og komu þá niður með 13 kindur. Ekki er vitað af fleiri kindum á svæðinu en erfitt er að útiloka það með vissu.

Ragnar segir féð hafa verið dreift um nokkuð stórt svæði, mest hafi þó verið í Mælifellsheiði og Böðvarsdal. Féð í Mælifellsheiðinni komi mest úr Þistilfirði en úr Jökulsárhlíð í Böðvarsdal.

„Það er allur gangur á hvernig er smalað. Það mætti laga göngurnar mikið. Þetta er alltof mikið sem verður eftir,“ segir Ragnar.

Ferðir Ragnars og Emils eru farnar eftir að göngutíma á að vera lokið. Ragnar hefur farið reglulega til að bjarga kindum síðustu vetur og kveðst gera það til að bjarga dýrunum.

„Ég er búinn að vera í þessu síðan 2010/2011. Við fengum í fyrsta sinn borgað frá hreppnum í síðustu ferð. Annars hefur þetta verið þannig að við förum af stað þegar við fréttum af kind.

Það er ekki skemmtilegt að vita af þeim þarna uppi. Við viljum frekar ná í þær.“

Hann segir ástand kindanna hafa verið þokkalegt. „Sumar hafa verið horaðar en almennt hefur ástand þeirra verið þokkalegt.“

Mynd: Ragnar Antonsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.