Hafa tvöfaldað afkastagetu frystihússins

Frystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði afkastar nú tvöfalt meiri afla heldur en það gerði fyrir fjórum árum síðar. Mikið hefur verið lagt í tæknivæðingu hússins á síðustu árum.

„Við byrjuðum að tæknivæðast fyrir þremur árum. Við settum fyrst upp nýja skurðarvél, síðan lausfrysti og loks nýja flæðilínu í haust.

Við fórum með 200 tonn af fiski í gegnum húsið á átta tímum síðustu vikuna í maí. Það eru tvöföld afköst á við það sem var áður en við byrjuðum tæknivæðinguna, með sama fjölda af fólki,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Kolmunnavertíð er að ljúka á Fáskrúðsfirði eins og hjá flestum öðrum austfirskum sjávarútvegsfyrirtækjum, en Friðrik Mar segir veiðarnar hafa farið að tregast fyrr en síðustu ár.

Friðrik Mar segir veiðarnar hafa gengið erfiðlega sem sést á því að alls hafa verið veidd rúm 178 þúsund tonn af kolmunna það sem af er ári, samanborið við tæp 225 þúsund tonn fyrri helming ársins í fyrra.

„Veturinn var erfiður því veðrið á Norður-Atlantshafi hefur verið óvenju slæmt. Það var brjálað þegar við vorum að veiða við Færeyjar í janúar og mjög leiðinlegt þegar við færðum okkur í áttina til Írlands. Við bætist að minna gekk af kolmunna inn í færeysku lögsöguna.

Við getum veitt aftur í haust. Við hjá Loðnuvinnslunni munum klára okkar kvóta en ég held að kvóti íslenskra skipa náist ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.