Hafsteinn tilnefndur til barnabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hafsteinn Hafsteinsson, rithöfundur og myndskreytir í Neskaupstað, var í morgun tilnefndur til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bók sína Enginn sá hundinn sem kom út fyrir síðustu jól. Honum er efst í huga þakklæti til þeirra sem studdu hann við gerð bókarinnar.


„Bókin er tileinkuð föður mínum sem lést fyrir nokkrum árum og besta tilhugsunin um að í gegnum bók nær minning hans lengra.

Ég hefði aldrei náð svona langt nema fyrir þá sem eru nálægt mér og hafa stutt mig. Maðurinn minn Hákon (Guðröðarson) hvatti mig áfram og Forlagið hafði trú á hugmyndinni.“

Þetta voru viðbrögð Hafsteins þegar Austurfrétt hafði tal af honum eftir að tilnefningin var kunngjörð í morgun. Tólf bækur eru tilnefndar til verðlaunanna sem afhent verða í Helsinki í Finnlandi 1. nóvember.

„Þetta kom mér mjög á óvart. Það sem ég er hvað ánægðastur með er að í umsögn með tilnefningunni er talað um allt það sem ég vildi ná fram þegar ég gerði bókina. Það er eiginlega besta tilfinningin þegar fólkið skilur fullkomlega hvað þú ert að segja með verkinu.“

Hafsteinn er höfundur sögunnar Enginn sá hundinn og myndskreytir bókina en Bjarki Karlsson ljóðsetti hana. Þar er sagt frá hundi sem er jólagjöf til barna og fær hann mikla athygli fyrsta árið en um næstu jól koma snjalltæki upp úr pökkunum og þá dvínar áhuginn á honum skjótt.

Mikilvægum boðskap komið á framfæri á gamansaman hátt

Í umsögninni segir að Enginn sá hundinn sé „fyndin og hugkvæm bók með ádeilubroddi því að hlutverkum manna og dýra er snúið við; fólkið er óvirkt, afskiptalaust og sér ekki eða heyrir en dýrin eru hlýleg og tilfinningarík, skapandi og virk.

Myndir Hafsteins Hafsteinssonar eru fallegar og minna á teiknimyndir og myndabækur fimmta áratugarins um margt. Litir eru glaðlegir en mjúkir og „mannleiki“ hundsins og kattarins er undirstrikaður með skýrum útlínum þeirra öfugt við fólkið. Stærri og smærri myndir skiptast á í góðu flæði á síðum bókarinnar.

Fjörlegar og vel kveðnar vísur Bjarka Karlssonar sem minna á rapptexta undirstrika bæði sorg og gleði félaganna góðu, „frábæru og fróðu“. Bókin er mjög vel heppnuð og mikilvægum boðskap komið á framfæri á gamansaman hátt.“

Barna- og unglinkgabókaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst árið 2013. Verðlaunin í fyrra hlaut Agnar Már Arngrímsson fyrir Sölvasögu unglings.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.