Hálf milljón of hár þröskuldur til þátttöku í nýsköpunarverkefni
Frumkvöðlar á landsbyggðinni geta þurft að yfirstíga háa þröskulda í formi ferðakostnaðar til að geta haft aðgang að stuðningi sem frumkvöðlum á höfuðborgarsvæðinu stendur til boða. Slíkt er vont fyrir svæði sem þurfa sárlega á nýsköpun að halda.Á þetta benti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í umræðum á Alþingi í síðustu viku.
Bjarkey vísaði þar til viðskiptahraðalsins „Til sjávar og sveita“ sem kynntur varið nýverið en honum er ætlað að styðja við nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi. Ríkið kemur að hraðlinum í gegnum Matarauð Íslands.
Verkefnið var kynnt eystra nýverið en Bjarkey benti á að allnokkurt átak hefði þurft til að fá kynninguna austur, sem sé furðu líkast á tímum sem talað sé um jafnan rétt íbúa, óháð búsetu.
Hraðallinn er haldinn í Reykjavík og höfðu þeir sem sóttu kynningarfundinn mikinn áhuga á mögulegum ferðastyrkjum ef verkefni þeirra yrðu tekin inn í.
„Á daginn kom að þrátt fyrir að ekkert kosti að taka þátt í verkefninu fyrir frumkvöðla er ekkert fjármagn eyrnamerkt ferðakostnaði. Fyrir þá hugmyndaríku frumkvöðla sem búa á Austurlandi þarf að hósta upp a.m.k. hálfri milljón í ferðakostnað í þær átta vikur sem hraðallinn tekur.
Það þykir mér vera óþarflega há aðgangshindrun fyrir landshluta sem sárlega þarfnast aukinnar nýsköpunar og aukinna fjárfestinga í nýsköpun,“ sagði Bjarkey.
Hún vísaði til nýlegrar samantektar Byggðastofnunar um hagvöxt áranna 2008-2016 sem var 1% á Austurlandi en 10% á landsvísu. Fjórðungurinn sitji eftir. Við því þurfi að bregðast.
„Þar kemur inn mikilvægi verkefna eins og þessara og við getum ekki látið hjá líðast að gera enn betur í þessum málum þannig að störf framtíðarinnar verði til úti um allt land.“