Hálfur milljarður í afgang hjá Fjarðabyggð

Tæplega 500 milljóna króna afgangur varð af rekstri sveitarfélagsins Fjarðabyggðar á síðasta ári. Það er nokkru betri afkoma en ráð var fyrir gert. Skuldir sveitarfélagsins eru enn miklar en vel hefur gengið að greiða þær niður.

Samkvæmt nýsamþykktum ársreikningi sveitarfélagsins varð 485 milljóna afgangur af rekstri sveitarfélagsins en þó ekki nema 9,6 milljónir úr A-hluta, sem gjarnan er útskýrður sem sá hluti rekstrar sveitarfélags sem rekinn er á skatttekjum.

Afkoman er töluvert betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun en þar var reiknað með meira en 100 milljóna tapi í A-hlutanum.

Tekjurnar í fyrra námu sjö milljörðum, þar af fimm milljörðum í A-hluta og jukust þær um 800 milljónir milli ára.

Allur samanburður milli ára er samt erfiður þar sem hjúkrunarheimilin á Eskifirði og Fáskrúðsfirði eru færð inn í reikninga sveitarfélagsins sem ekki hefur verið gert. Ákvörðun um það var tekin fyrir skemmstu af bæjarstjórn að fenginni ráðgjöf KPMG. Þá hafa breytingar á lífeyrissjóðsskuldbindum við Lífeyrissjóðinn Brú áhrif á Fjarðabyggð, líkt og flest önnur sveitarfélög.

Um helmingur teknanna eru fasteignaskattar og útsvar. Stærsti útgjaldaliðurinn er fræðslu- og uppeldismál upp á 2,3 milljarða eða 54% skatttekna.

Samanlagðar skyldir sveitarfélagsins standa í tæpum níu milljörðum. Í greinargerð með ársreikningnum segir að skuldirnar séu nokkuð háar en séu greiddar niður í samræmi við áætlanir. Skuldahlutfall sveitarfélagsins um síðustu áramót var 126,8% en má vera 150% samkvæmt lögum.

Í greinargerðinni er einnig bent á að bæta þurfi rekstur A-hluta sveitarfélagsins til að takast á við hugsanlegar sveiflur og frekari fjárfestingar. Búast megi við að fjárhagur sveitarfélagsins eflist áfram þar sem íbúum fjölgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.