Hallormsstaður heitasti staður landsins í júní

Hæsti meðalhiti á landinu í nýliðnum júnímánuði var á Hallormsstað. Mánuðurinn var sá næst heitasti sem mælst hefur á Dalatanga í 80 ára sögu veðurathugana þar.

Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands yfir tíðarfar í júní. Mánuðurinn var hlýr og sólríkur á austanverðu landinu þar sem hitinn fór oft yfir 20 stig.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Hallormsstað, 11 gráður. Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,2 stig í Neskaupstað föstudaginn 29. Sama dag mældist 22 stiga hiti á Skjaldþingstöðum í Vopnafirði sem var hæsti hitinn á mannaðri stöð.

Á Dalatanga var meðalhitinn 8,4 gráður sem skilar mánuðinum í 2. – 3. sæti 80 ára mælinga þar í júní mánuði. Á Egilsstöðum var hitinn 10,6 gráður sem þýðir níunda sætið í 64 ára sögu og 8,8 á Teigarhorni sem er sama sæti í 164 ára sögu.

Á öllum stöðunum er meðal hitinn meira en gráðu yfir meðalhita júnímánaðar undanfarin tíu ár. Þegar skoðað er meðaltal áranna 1961-1990 verður frávikið meira, 2,2 gráðum yfir á Dalatanga, 1,9 á Egilsstöðum og 1,6 á Teigarhorni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar